Stjórnun, atvinnulíf og rannsóknaraðferðir

 


Rafrænir aðalfundir

Höfundar: Throstur Olaf Sigurjonsson, Audur Arna Arnardottir, et.al.

Ágrip:

Fyrirkomulag aðalfunda fyrirtækja hefur þróast vegna stafrænna lausna, Covid-19 hindrana og lagabreytinga. Þessum breytingum hafa fylgt áskoranir en líka tækifæri. Af sumum er þróunin talin ganga gegn tilgangi aðalfunda, þeim að tryggja hluthöfum upplýsingar um starfsemi fyrirtækis, að geta spurt stjórnendur og stjórnarmenn spurninga, leggja mat á tillögur stjórna og stjórnenda og greiða atkvæði um þær. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á það hver reynslan var af rafrænum aðalfundum meðan Covid-19 gekk yfir árin 2020 til 2022. Lagt er upp með rannsóknarspurninguna hver er reynsla hagsmunaaðila, s.s. hluthafa, stjórnarformanna og stjórnarmanna, forstjóra og regluvarða, til þess hvernig aðalfundir hafa þróast og væntingar þeirra til framtíðar stafrænna aðalfunda? Þeirri aðferð var beitt að senda rafrænan spurningarlista til ofangreindra hópa innan skráðra fyrirtækja á Íslandi. Niðurstöður eru þær að allir hagsmunahópar í könnuninni telja rafræna aðalfundi skilvirka og umhverfisvæna. Tæknilegir örðugleikar og hugsanleg vandamál við atkvæðagreiðslu eru ekki stór áhyggjuefni. Rafrænir aðalfundir eru taldir leiða til þátttöku fjölbreyttari hóp hluthafa. Þátttakendur telij að mæting lítilla hluthafa hafi ekki aukist. Þátttakendur hafa áhyggjur af því að megin tilgangi aðalfunda sé ekki vel mætt með rafrænu formi. Þeir telja að dregið geti úr því að hluthafar spyrji spurninga á aðalfundi, umræður um umdeildar tillögur verði ekki nægjanlega ríkar, eftirlit með forstjóra verði slakara og umræður milli hluthafa minnki. Lærdómur rannsóknarinnar er að rafrænir aðalfundir geta skilað skilvirkum fundum, en hætta er að farið sé á mis við stuðning við hagsmuni hluthafa.

Efnisorð: stjórnarhættir, aðalfundir, stafrænar lausnir


Eru fyrirtæki og stjórnendur sem iðka siðferðilega forystu að ná betri árangri?

Höfundar: Páll Ingi Jóhannesson, Haraldur Daði Ragnarsson

Ágrip:

Fagleg forysta er nálgun sem mörgum finnst erfitt að henda reiður á og hvaða þættir það eru sem einkenna fyrirtæki og stjórnendur sem ná árangri. Tilgangur erindis er að rýna fyrirliggjandi fræði er snúa meðal annars að kenningum í leiðtogafræðum og finna hugsanleg tækifæri til þekkingaröflunar. Fremur fáar rannsóknir hafa beinst að siðferðilegri forystu í fyrirtækjum og er meðal annars markmið rannsóknarinnar að skoða siðferðilega forystu og flétta hana með hagaðilastjórnun og stjórnarháttum fyrirtækja. Markmiðið er einnig að komast að því hvort að fyrirtæki sem að iðka siðferðilega forystu séu að ná betri árangri og með meiri starfsmannaánægju, betri rekstrarafkomu og minni starfsmannaveltu en fyrirtæki sem ekki iðka siðferðilega forystu. Hálf-opin viðtöl verða tekin við átta til tíu stjórnendur í ólíkum fyrirtækjum og þau þemagreind ásamt því að rannsakandi mun máta þær áherslur sem koma fram hjá viðmælendum á fyrirliggjandi fræði um siðferðilega forystu. Niðurstöður viðtala ásamt fyrirliggjandi fræðum og einkennandi þáttum verða svo í kjölfarið nýttar við gerð spurningakönnunar sem lögð verður fyrir starfsfólk viðkomandi fyrirtækja. Gagnagreining mun snúa að því að samræma niðurstöður úr þessum tveimur rannsóknaraðferðum.

Efnisorð: Siðferðileg stjórnun, Starfsmannaánægja, Betri rekstrarafkoma


„Eftir þessu rími verða mennirnir að stíga dans lífsins“: Guðmundur Finnbogason og fyrsta íslenska stjórnunarkenningin

Höfundar: Njörður Sigurjónsson

Ágrip:

Í rannsókninni er gerð grein fyrir hvernig ólík tímahugtök móta kenningar um stjórnun. Dæmi er tekið af vinnuvísindakenningum Guðmundar Finnbogason (1873-1944) heimspekings og sálfræðings eins og þær koma fram í ritunum Vit og strit (1915) og Vinnan (1917). Markmið greiningarinnar er að setja íslenska stjórnunarkenningu í samhengi við hugmyndasögu stjórnunarfræða og skilja betur samband tíma og stjórnunar. Stuðst er við greiningu á textum frá því tímabili sem Guðmundur setur fram hugmyndir sínar og þær skoðaðar út frá samtímahugmyndum og kenningum um þróun stjórnunarhugsunar. Sérstakur gaumur er gefinn að náttúrutíma og takti, en sjá má af efnistökum Guðmundar að hann er opinn fyrir ólíkum áhrifum eigin reynslu, tæknihyggju og bókmennta í aðferðafræði sinni og hugsun. Helstu niðurstöður greiningarinnar eru að fyrstu íslensku stjórnunarkenningarnar eru settar fram með hliðsjón af því allra ferskasta sem sett hafði verið fram á þeim tíma og fanga jafnframt þær andstæðu hugmyndir sem hafa mótað stjórnunarfræði alla síðustu öld og til dagsins í dag. Rannsóknin er framlag til sögu íslenskra stjórnunarfræða og skilnings á tíma sem viðfangi stjórnunar og stjórnunarfræða.

Efnisorð: Stjórnunarfræði, Tími, Vinnuvísindi


Framsetning fylgnifylkja

Höfundar: Helgi Tómasson

Ágrip:

Þegar tengslum breyta er lýst er oft notast við fylgnifylki (e.textit{correlation-matrix}) eða samdreifnifylki (e.textit{covariance-matrix}). Slík fylki eru jákvætt ákveðin (e.textit{positive-definite}). Það er auðvelt að uppfylla slíkt skilyrði ef fylkið er lítið, en það er flókið ef fylkið er stórt Sömuleiðis er tæknilega erfitt að þvinga ákveðin skilyrði á fylkið ef fylkið er stórt. Slík skilyrði geta t.d. verið að einhver stök séu 0 eða að eins og til dæmis í þáttagreiningu (e.textit{factor-analysis}) þegar ákveða (e.textit{determinant}) fylkisins er 0. Gert er grein fyrir nokkrum tæknilegum leiðum til að nálgast þennan vanda. Sér í lagi eru bornar saman tvær aðferðir sem byggja á að breyta stökum fylkisins í horn, þ.e. Choleski þáttun og Givens snúningum. Mat á fylkinu er því umbreytt í mat á ákveðnum hornum. Sýnt er hvernig megi nota þessar aðferðir við þáttalíkön (e.textit{factor-model}) og nokkur önnur tilfelli þegar fylkið, eða andhverfa þess (e.textit{precision-matrix}) hefur ákveðið form. Tölfræðilegir eiginleikar matsaðferða eru lauslega reifaðir. Þegar fylkið er stórt er fjöldi frjálsra stika (e.textit{parameters}) mjög mikill. Það er því til mikils að vinna að geta sett skynsamlegar skorður (e. textit{restrictions}) á fylkið. Hugsanleg hagnýting á gögnum af fjármálamörkuðum er reifuð.

Efnisorð: Fylgni, Tölfræðilegar matsaðferðir, Reiknitækni

Upplýsingar
Upplýsingar