Stjórnun og nýsköpun

 


Upphaf, þróun og einkenni á frumkvöðlasetrum Nýsköpun armiðstöðvar Íslands

Höfundar: Runólfur Smári Steinþórsson

Ágrip:

Hér er fjallað um frumkvöðlasetur sem voru starfrækt af eða í tengslum við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Fyrsta setrið var stofnað árið 1999 af Iðntæknistofnun Íslands. Nýsköpunarmiðstöðin tók við rekstrinum árið 2007. Þegar miðstöðin var lögð niður í lok ársins 2020 hafði hún komið að stofnun eða rekstri um 20 frumkvöðlasetra. Við rannsóknina var byggt á fyrirliggjandi gögnum af ýmsu tagi. Jafnframt voru tekin viðtöl við aðila bæði innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og við fulltrúa fyrirtækja sem störfuðu á frumkvöðlasetrum. Viðtöl voru afrituð, kóðuð og þemu sett fram um einkenni á starfsemi frumkvöðlasetranna. Rannsóknin leiddi í ljós að saga frumkvöðlasetra sem voru hluti af eða tengdust starfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands spannar 21 ár, þ.e. frá 1999 til 2020. Frumkvöðlasetrin voru 22 talsins. Helstu niðurstöður er að sjá mátti fjóra mismunandi flokka af frumkvöðlasetrum. Um var að ræða hefðbundin eða sérhæfð setur, setur tengd bankahruni, setur sem fengu þjónustu frá Nýsköpunarmiðstöð og setur sem voru starfandi á landsbyggðinni. Niðurstöður gefa vísbendingar um áherslur í þjónustu setranna og helstu einkennin á starfsemi þeirra. Rannsóknin varpar hagnýtu ljósi á hvað hefur einkennt starfsemi frumkvöðlasetra í umhverfi eins og á Íslandi. Niðurstöður gætu nýst stjórnendum og stjórnvöldum. Niðurstöðurnar eru líka framlag innlegg til þekkingar á því sem einkennir starfsemi frumkvöðlasetra og á hlutverki þeirra í nýsköpunarumhverfi og þróun í samfélagi.

Efnisorð: Frumkvöðlasetur, megineinkenni, áherslur


Nýsköpun stúdenta er allra mál

Höfundar: Agnar Logi Kristjánsson, Runólfur Smári Steinþórsson

Ágrip:

Stúdentar eru mikilvægir þegar kemur að nýsköpun bæði sem framtíðar-frumkvöðlar og sem hugmyndafrjótt og nýskapandi vinnuafl. Þrátt fyrir það hefur lítið verið rannsakað hér á landi bæði hvað staðan er í sambandi við nýsköpun stúdenta og hvernig má efla hana. Sömuleiðis hefur lítið verið skrifað um stúdentafélög yfirleitt og ekkert í sambandi við þátt stúdenta þegar kemur að nýsköpun. Hinsvegar er ýmislegt að gerast og Landssamtök íslenskra stúdenta eða LÍS lögðu grunninn að nýsköpunarstefnu sinni með vinnustofum núna í mars síðastliðnum. Rannsóknin er lýsandi þar sem eigindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar til að varpa ljósi á nýsköpun meðal stúdenta. Viðtöl voru tekin við 6 sérfróða aðila sem tengjast Háskóla Íslands og niðurstöður bornar saman við gögn sem fengust frá stúdentum á vinnustofum Landssamtaka íslenskra stúdenta. Niðurstaðan var sú að tækifæri eru mörg og staðan almennt góð, en þó er ýmislegt sem má huga að, sérsaklega að kynna nýsköpun betur og bæta tækifæri á landsbyggðinni.

Efnisorð: Nýsköpun, stúdentar, nýsköpunarstefna


X-faktorinn við opna nýsköpun á vöruþróunarferlinu. Rannsókn á tilurð og mótun opinnar nýsköpunar á vöruþróunarferlinu í tveimur leiðandi fyrirtækjum.

Höfundar: Stella Stefánsdóttir, Runólfur Smári Steinþórsson

Ágrip:

Tilurð og mótun opinnar nýsköpunar á vöruþróunarferlinu eru talin hornsteinn í samstarfi á vöruþróunarferlinu, en hafa lítið verið rannsökuð. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka og varpa ljósi á tilurð og mótun samstarfs á opnu vöruþróunarferli. Rannsóknin er unnin út frá rannsóknarspurningunum: a) Hvaða þættir við mótun og tilurð samstarfs geta útskýrt afhverju fyrirtækjum gengur vel að móta árangursríkt samstarf um opna nýsköpun við vöruþróun á nýjum vörum? b) Hvaða þáttur af þeim þáttum sem þegar hafa verið nefndir, skiptir mestu máli fyrir árangur opins samstarfs um vöruþróun á nýjum vörum? Rannsóknin er eigindleg og byggir á tilviksathugunum á tveimur leiðandi alþjóðlegum hátæknifyrirtækjum, Marel og Össur. Gagna var aflað með 23 viðtölum við einstaklinga sem komu að mótun samstarfs á vöruþróunarferlum fyrirtækjanna og tilviksathugunum á sex vöruþróunarverkefnum. Rannsóknin er byggð á kenningum um opna nýsköpun og vöruþróun nýrra vara (NPD), og veitir innsýn inn í skilning og samspil mismunandi þátta við mótun og tilurð opinnar vöruþróunar. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að einstaklingar séu X-þátturinn í opinni nýsköpun á vöruþróunarferlinu og gegni lykilhlutverki við tilurð og mótun samstarfs. Niðurstöður gefa til kynna að fyrir utan einstaklinginn þá hafi umgjörð samstarfs áhrif á framvindu vöruþróunar í átt að lausn. Fræðilegt og hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í að varpa ljósi á, auka skilning og setja fram viðmið um tilurð og mótun samstarfs og hvernig samstarsaðilar veljast saman. Aukin þekking á þessum þáttum getur aukið og ýtt undir skilvirkt samstarf um nýsköpun.

Efnisorð: nýsköpun, vöruþróunarferli, samstarf


Viðhorf til sviðsmyndagerðar og framsýni sem hluta af stefnumótun

Höfundar: Karl Friðriksson, Runólfur Smári Steinþórsson

Ágrip:

Fjallað verður um framsýni með áherslu á sviðsmyndagreiningu og greiningu drifkrafta sem undanfara stefnumótunar. Með hugtakinu framsýni er átt við það að rýna inn í framtíðina m.a. til að ná utan um helstu drifkrafta breytinga. Þetta fellur undir framtíðarfræði (e. future studies) og þær rannsóknir sem hér er greint frá eru unnar í tengslum við Framtíðarsetur Íslands sem á í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Til að gefa innsýn í framtíðarfræði verður fyrst varpað ljósi á nokkur verkefni og greint frá niðurstöðum þeirra. Aðaláherslan verður á að greina frá niðurstöðum úr alþjóðlegri úttekt þar sem notuð var Delphi aðferðafræði (Real-Time Delphi), við mótun stefnuvalkosta á grundvelli drifkraftagreiningar. Rannsakandi var ásamt 189 framtíðarfræðingum frá 54 löndum þátttakandi verkefninu sem unnið var í tengslum við sameiginlega áætlun (Common Agenda) aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Í niðurstöðum Delphi greiningarinnar komu fram fimm stefnukostir til að takast á við vá á heimsvísu. Þessir kostir eru innlegg í þann sáttmála þjóða sem vinnan var hluti af í tengslum við Sameiginlega áætlun Sameinuðu þjóðanna. Umræðan er svo dregin saman í lokin og sett í samhengi við sviðsmyndagreiningu, en það er aðferð sem hefur náð nokkurri fótfestu hér á landi og er orðin viðurkennd aðferð við framsýni. Fram hafa komið nokkrir vankantar á aðferðinni sem þarfnast endurmats við framkvæmd hennar. Þeir vankantar eru reifaðir og bent á kosti til úrbóta.

Efnisorð: Sviðsmyndagreining, drifkraftar, stefnumótun


Upplýsingar
Upplýsingar