Stuðlagil – áfangastaður í mótun

Málstofustjóri: Stefanía Katrín Karlsdóttir

Málstofan fjallar um rannsóknarverkefnið Stuðlagil: áfangastaður í mótun. Að verkefninu koma 5 kennarar við námsbraut land- og ferðamálafærði í Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða þrjá nemendur í vinnu við verkefnið. Í málstofunni verður þetta rannsóknarverkefni kynnt, fjallað verður um helstu niðurstöður þess og þær settar í fræðilegt samhengi. Höfundar eru Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði; Benjamin David Hennig, prófessor í landfræði; Edda R.H. Waage, lektor í land- og ferðamálafræði; Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði; Katrín Anna Lund, prófessor í ferðmálafræði; Karítas Ísberg, nemi í landfræði; Ragnar Már Jónsson, nemi í ferðamálafræði; Sóley Kristinsdóttir, nemi í landfræði.

Nýsköpunarverkefnið um Stuðlagil: Tækifæri fyrir nemendur til starfsþróunar í rannsóknum

Stuðlagil er nýr áfangastaður ferðamanna sem komist hefur á kortið fyrir tilstilli samfélagsmiðla. Staðurinn dregur nafn sitt af 30 m hárri stuðlabergsmyndun sem stendur vörð um árfarverg Jökulsár á Dal, á landamerkjum jarðanna Grundar annars vegar og Klaustursels hins vegar á Efra-Jökuldal. Stuðlagil varð ekki sýnilegt í þeirri mynd sem nú er fyrr en eftir að Kárahnjúkastífla var tekin í gagnið. Frá árinu 2017 hafa ferðamenn vanið komur sínar á svæðið, í sívaxandi mæli. Svæðið hefur ekki verið búið undir komu alls þess fjölda fólks sem þangað leggur nú leið sína. Landeigendur standa því frammi fyrir margháttuðum áskor­unum sem varða t.d. öryggi ferðamanna, stjórnun á umferð þeirra og umgengni, sem og náttúrufar. Sumarið 2019 var gerð rannsókn í samvinnu námsbrautar í land- og ferðamálafræði og Landeigendafélagsins Jökuldalur sf. Markmið rannsóknar­verkefnisins var að skapa heildstæða þekk­ingu um stöðu Stuðlagils sumarið 2019 sem áfangastað ferða­manna. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og voru þrír nemendur í námsbraut land- og ferðamálafræði ráðnir til að safna gögnum á svæðinu og að vinna úr þeim.Erindi þetta er það fyrsta í málstofu sem fjallar um þetta rann­sókn­ar­verkefni. Auk þess sem rannsóknarverkefnið verður kynnt, og línur lagðar fyrir önnur erindi í málstofunni, verður sjón­um beint að gildi þátttöku nemenda í rannsóknarverkefnum sem þessu, m.a. út frá sjónarmiðum þeim sem birtast í stefnu Háskóla Ís­lands 2016-2021.

Edda R. H. Waage

Stuðlagil: Tengsl stafræns veruleika og náttúrulegs efnisheims

Við mótun áfangastaða ferðamanna verða ýmsar breytingar á rýmum samfélags, umhverfis og náttúru. Marga þætti þarf að hafa í huga þegar móta á stefnu um uppbyggingu nýs áfanga­staðar. Í þessu erindi verður fjallað um rými áfangastaðarins Stuðlagils með áherslu á hans efnislega form og tilvist á net­miðlum. Leiddar verða í ljós þær áskoranir sem staðurinn stendur frammi fyrir í því samhengi. Umfjöllunin byggir á grein­ingu á orðræðu og birtingamyndum Stuðlagils á sam­félags­miðlum. Einnig byggir hún á athugunum á efnislegu ástandi landsins í kringum Stuðlagil sem framkvæmdar voru á vettvangi sumarið 2019. Sýnt er fram á hvernig tilurð Stuðlagils, sem áfanga­staðar ferðamanna, megi rekja til samfélagsmiðla. Vax­andi umfjöllun um staðinn á netmiðlum hefur ýtt undir mikla fjölgun á heimsóknum ferðamanna, sem svo aftur hefur leitt til mikilla breytinga á ástandi lands og náttúru: Mikið rof varð á göngustígum og jarðvegi á bökkum Stuðlagils, röskun á varpi heiðargæsar og gróðurskemmdir. Niðurstöður benda til að mikil dreifing efnis með áhrifamikilli myndrænni framsetningu á net­miðlum geti þróast út í breytingar á ástandi lands og náttúru. Því er mikilvægt að vanda til uppbyggingar innviða með hags­muni náttúru og umhverfis að leiðarljósi.

Benjamin David Hennig og Karítas Ísberg

Stuðlagil: Upplifun ferðamanna af áfangastað á fyrstu stigum uppbyggingar

Mikilvægt er að greina þarfir og upplifun ferðamanna er kemur að uppbyggingu áfangastaða. Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður megindlegrar gagnaöflunar sem fram fór við Stuðlagil sumarið 2019. Markmiðið var að greina stöðu ferða­mennsku á svæðinu með því að kanna hversu margir ferðamenn kæmu á svæðið, hvers konar ferðamenn sæktu þangað og hver upplifun þeirra væri við heimsóknina. Greint verður annars vegar frá niðurstöðum talninga á ferðamönnum og hins vegar niður­stöðum spurningakönnunar sem lögð var fyrir ferðamenn. Gagna­öflun fór fram á landi Grundar á Efra-Jökuldal en þar hefur nokkur uppbygging innviða fyrir ferðamennsku átt sér stað. Alls svöruðu 432 manns spurningakönnuninni á þeim tveimur vikum sem varið var á vettvangi. Niðurstöður gáfu til kynna að heilt á litið voru ferðamenn ánægðir með dvöl sína á svæðinu jafnvel þótt upplifun margra hafi verið önnur en væntingar þeirra stóðu til. Margir fundu fyrir óöryggi á göngu niður að útsýnissyllum á gljúfurbarminum, þrátt fyrir að vera á merktum göngustígum. Misvísandi sjónarmið komu fram meðal ferðamanna hvað varðar framtíðaruppbyggingu svæðisins. Áskoranir við uppbyggingu svæðisins eru því margvíslegar og flóknar úrlausnar.

Anna Dóra Sæþórsdóttir og Ragnar Már Jónsson

Stuðlagil: Viðhorf og væntingar heimamanna við breyttu landslagi Efra-Jökuldals

Við uppbyggingu og þróun áfangastaða ferðamanna er mikil­vægt að huga að viðhorfum heimamanna og þeim áhrifum sem mótun svæðisins getur haft á þá sem þar búa. Uppgangur ferða­mennsku við Stuðlagil á Efra-Jökul­­dal er kominn til að vera. Þar er aldagömul hefð fyrir sauð­fjár­rækt. Samfélagið er fámennt og afskekkt sem lengi vel stuðlaði að einangrun íbúanna. Sá mikli straumur ferðamanna sem nú heimsækir dalinn hefur því áhrif á bæði andrúmsloft meðal íbúa dalsins og samfélagið í heild. Viðamiklar lands­lags­breytingar hafa þannig verið að eiga sér stað. Hvaða áskorunum standa heimamenn frammi fyrir á Efra-Jökuldal? Hverjar eru væntingar þeirra og viðhorf? Í þessu erindi verður ljósi varpað á hvernig íbúar í nágrenni Stuðlagils sjá fyrir sér framtíð dalsins með tilkomu þessa nýja áfangastaðar. Einnig verða dregin fram sjónarmið aðila sem geta haft áhrif á þróun staðarins á einn eða annan hátt, s.s. fulltrúa sveitarfélagsins og ferðaþjónustunnar. Niðurstöðurnar byggja á ítarlegum viðtölum við hlutaðeigandi. Þær leiða í ljós mikilvægi samvinnu og sam­starfs milli allra aðila, sér í lagi heimamanna, til þess að sátt ríki á tímum breytinga og nauðsynlegrar uppbyggingar í dalnum.

Katrín Anna Lund og Sóley Kristinsdóttir

Áfangastaðir í krafti ferðamanna?

Tilurð ferðamennsku við Stuðlagil og mótun svæðisins sem áfanga­staðar ferðamanna dregur fram spurningar sem hafa lengi verið miðlægar í ferðamálafræði um hvernig ferðamennska skapar og mótar staði og hverjir ráða mestu um það ferli.

Í þessu erindi fjöllum við um ólíkar leiðir til að lýsa og leggja merkingu í tilurð og mótun áfangastaða ferðamanna með sér­staka áherslu á það vald sem ferðamenn eru taldir hafa til að skilgreina og þróa aðdráttarafl. Hefðbundnar kenningar ferða­málafræða hafa lýst þróun áfangastaða á vélrænan hátt þar sem uppgötvun ferðamanna á tilteknum stöðum og ferðahegðun þeirra er megindrifkraftur í vexti ferðamennsku. Slíkar hug­myndir má gagnrýna fyrir að gera lítið úr gerendahæfni íbúa og skipulagsaðila ferðamannastaða auk ýmissa ytri krafta sem hvorki ferðamenn né íbúar hafa beint vald yfir. Uppgangur ferða­mennsku við Stuðlagil virðist þó styrkja þá sýn að ferða­menn og oft og tíðum tilviljanakennd hegðun þeirra skilgreinir aðdráttarafl staða. Í erindinu færum við hins vegar rök fyrir að þó að ferðamenn hafi umtalsvert vald til að knýja þróun ferða­mannastaða sé ekki gagnlegt að hverfa aftur til hefðbundinna kenninga um mótun þeirra. Með því að rekja tilurð Stuðlagils sem áfangastaðar framkallast margþættur vefur ólíkra gerenda sem spanna svið menningar og náttúru og eiga þátt í að móta staðinn.

Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
Annað / Other
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45