Þjóðsagnir og menningararfur I

 


Ferðast á milli heima: Af Vesturheimsferðalögum fólks og forneskju

Höfundar: Eiríkur Valdimarsson

 

Ágrip:

Árið 1972 ferðuðust Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir til Kanada á slóðir landnáms Íslendinga og tóku viðtöl við fólk af íslenskum uppruna. Flest viðtölin fóru fram á íslensku, jafnvel þótt viðmælendurnir væru sumir af annarri eða þriðju kynslóð innflytjenda í landinu. Þar er rætt um minningar frá gamla landinu og lifnaðarhætti í því nýja, auk þess sem spurt er út í þjóðtrú, kvæði og sögur. Undanfarin misseri hefur verið gert átak við að koma þessum upptökum fyrir almenningssjónir, inn á ismus.is.
Í erindinu verður einkum fjallað um íslenska þjóðtrú sem fluttist með fólkinu vestur um haf: hver urðu örlög slíks efnis eftir að þangað var komið? Hvað varð um ættarfylgjur og forynjur Íslendinga sem yfirgáfu æskustöðvarnar?
Ljóst er að fólk tók með sér þekkingu og kunnáttu frá Íslandi og vestur um haf, en margt af því átti erfitt uppdráttar í nýrri heimsálfu. Inn í það spilar m.a. öðruvísi loftslag, menning, ný tungumál og sambúð með fólki af ýmiskonar uppruna. Líklega hefur þessi breyting reynt bæði á fólk og þjóðsagnaverur, enda eru til frásagnir af draugum sem hreinlega drifu sig aftur heim til Íslands við fyrsta tækifæri. Slíkar frásagnir lýsa kannski vel innri baráttu fólksins við hin miklu umskipti: þegar það hætti að vera Íslendingar og urðu Kanadabúar.

 

Efnisorð: Þjóðtrú, Vesturheimsferðir, Þjóðsagnaverur


Trees, cable boxes and garden walls: everyday objects as the loci of place attachment in urban landscape

Höfundar: Vitalina Ostimchuk

 

Ágrip:

When we live our lives in a certain place, we inevitably experience emotions and feelings towards it, our everyday actions and life events create memories that we associate with it. In the words of Sarah Ahmed, these emotions, feelings, and memories “stick” to the city landscape where we dwell. The familiar streets are haunted by the ghosts of our personal past. The main goal of this research is to gain insight into how these connections to the city landscape are formed, how the inhabitants attach meaning to the place they experience in their everyday life, whether we consider a childhood home, a place connected to their family history or other life events both important and mundane. In order to better capture the embodied experience of the participants and get the sense of their place-memory connections the methods of sensory ethnography were used. By conducting walk-along interviews with flexible route chosen by the participants in the midtown Reykjavik I have discovered that the objects that bear importance for the interviewees include not only buildings, parks and other bigger architectural forms but are often such inconspicuous things like a certain bench in the park, a garden wall, or a cable box. These mundane objects become the focal points of attention to which the emotions and memories stick, which invite the ghosts of the past and in this way become the loci of the attachment to the place and artefacts of the personal heritage.

 

Efnisorð: place attachment, urban landscape, everyday heritage, staðartengsl, borgarlandslag, hversdagslegur menningararfur


Skynrænar aðferðir og gildi sögulegs borgarlandslags.

Höfundar: Snjólaug G Jóhannesdóttir and Ólafur Rastrick

 

Ágrip:

Mörgum þykir borgarlandslag sem skartar eldri byggingum og skírskotar á einn eða annan hátt til liðins tíma hafa sérstakt aðdráttarafl. Fyrir íbúa eru slíkir staðir efnisleg birtingarmynd minninga og merkingar, sem tengja einstaklinga við stað og samfélag. Í rannsóknum á staðartengslum (place-attachment), hefur sýnt sig að virkar tengingar af þessu tagi við umhverfið hefur gildi fyrir velferð og samfélagslega virkni einstaklinga. Jafnframt hefur verið dregið fram að staðartengsl fólks byggja einungis að hluta til á skilvitlegum þáttum og að skynjun, tilfinningar og flókin úrvinnsla reynslu og minninga leikur lykilhlutverk í tengslamyndun fólks við staði.
Hin seinni ár hefur orðið vakning í að greina samband fólks við menningararfleifðina á heildstæðan hátt þar sem tekið er tillit til tilfinninga og hrifrænna þátta. Í yfirstandandi rannsókn eru þróaðar eigindlegar aðferðir á þessum grunni til að öðlast innsýn samband fólks við staði og hversdagslega byggingararfleifð. Í erindinu verður gerð grein fyrir aðferðafræðinni og sýnt fram á hvernig hún nýtist til að varpa ljósi á staðartengsl fólks og hvernig íbúar mynda fjölþætt samband við borgarlandslagið. Fjallað er um möguleika og takmarkanir þeirrar skynrænu aðferðafræði sem þróuð er í rannsókninni og sýnt fram á hvernig hún nýtist til að veita aðgang að skynjun, tilfinningalegum og hrifrænum þáttum í sambandi fólks og staða. Aðferðin varpar með þessum hætti nýju ljósi samband sögulegs borgarlandslags og mótun staðartengsla og eflir með því skilning á virkni og gildi hversdagslegs byggingararfs í samtímanum.

 

Efnisorð: Staðartengsl, Borgarlandslag, Skynræn etnógrafía, Place attachment, Urban landscape, Sensory ethnography


Aðdráttarafl þess sem eftir stendur. Staðartengsl og arfleifð í þéttbýli.

Höfundar: Anna Sigríður Melsteð

 

Ágrip:

Miklar umræður hafa löngum skapast um sögulegt landslag þéttbýlis og skiptar skoðanir hafa verið á þróun þess. Áhrif einstaklinga, yfirvalda og sérfræðinga á menningararfsumræðu eru augljós ekki síst þegar úrval þess sem eftir stendur er skoðað, sumt stendur frá fjarlægri fortíð, annað er horfið og nýtt komið í staðinn sem fellur að umhverfi sínu á viðeigandi hátt.
Stykkishólmur er sjarmerandi bær og talsvert af gömlum húsum sem standa þétt í elsta hluta bæjarins mynda miðbæinn. Ný hús á því svæði eru byggð í gömlum stíl sem falla vel að umhverfinu og viðhalda því um leið sem „gömlu“.
Í erindinu verður greind opinber orðræða um gömlu húsin í Stykkishólmi og hvernig litið er á þau sem aðdráttarafl og arfleifð svæðisins. Fjallað verður um gildi húsanna fyrir íbúana og færð rök fyrir því hvernig þau undirbyggja staðartengsl þeirra.
Rannsókn á opinberri orðræðu um gömlu húsin í Stykkishólmi leiðir í ljós að þau eru áberandi í kynningarefni um sveitarfélagið, einkum í tengslum við ferðaþjónustu. Orðræðan hefur einnig leitt til þess að snúið hefur verið frá því að nýbyggingar endurspegli strauma og stefnur samtímans í byggingarlist og að leitast er við að byggja á svæðinu í gömlum stíl. Rannsóknin sýnir einnig fram á að sjálfsmynd íbúa er jákvæð og staðartengsl þeirra við sögu og ásýnd miðbæjarins er sterk.

 

Efnisorð: staðartengsl, gamlar byggingar, þéttbýli


Flökkusögur flytjenda: Þau sem flytja í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins

Höfundar: Þóroddur Bjarnason

Ágrip:

Víða á Vesturlöndum jókst straumur fólksflutninga frá stærri borgum til annarra byggðarlaga á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Þessi „gagnþéttbýlisvæðing“ (e. counter-urbanization) hefur annars vegar falist í fólksflutningum til byggðarlaga á áhrifasvæðum borganna (e. exurbanization) en hins vegar flutningum til stærri bæja og smáborga sem sameina marga kosti þéttbýlis og dreifbýlis (e. microurbanization). Hér á landi var vöxtur Reykjavíkurborgar og síðar höfuðborgarsvæðisins eitt megineinkenni byggðaþróunar fram til loka 20. aldarinnar. Frá síðustu aldamótum hefur „Suðvestursvæðið“ í u.þ.b. 45 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík hins vegar vaxið hraðar en höfuðborgarsvæðið og fólki einnig fjölgað í smáborginni Akureyri. Á árunum 2000–2022 fjölgaði íbúum um 40% á höfuðborgarsvæðinu, 66% á Suðvestursvæðinu og 27% á Akureyri. Engin breyting varð á samanlögðum íbúafjölda allra annarra byggðarlaga á landinu. Í almennri og fræðilegri umræðu hefur oft verið gert ráð fyrir því að hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sé helsta ástæða fólksflutninga til Suðvestursvæðisins en vöxtur Akureyrar skýrist af flutningum fólks frá dreifbýlli svæðum á Norðurlandi. Í þessari rannsókn verður leitast við að svara því að hvaða marki aðflutningar til þessara byggðarlaga skýrist af flutningum (1) innfæddra höfuðborgarbúa, (2) heimafólks á leið til baka eftir búsetu annars staðar, (3) íbúa dreifbýlli nágrannabyggðarlaga eða (4) erlendra ríkisborgara. Byggt er á opinberum gögnum um fólksflutninga og íbúaþróun og niðurstöðum könnunar meðal íbúa Suðvestursvæðisins og Akureyrar. Niðurstöður benda til að hlutdeild uppalinna á höfuðborgarsvæðinu í slíkum flutningum hafi verið ofmetin en hlutdeild þeirra sem ólust upp á Suðvestursvæðinu eða Norðurlandi en fluttu síðar til höfuðborgarsvæðisins eða annarra landa að sama skapi vanmetin.

 

Efnisorð: Búferlaflutningar, Gagnþéttbýlisvæðing, Uppruni

Upplýsingar
Upplýsingar