Þjóðsagnir og menningararfur II

 


”Þær finna að þær eru öðruvísi en hinar kindurnar“ Rannsókn á viðhorfum til forystufjár

Höfundar: Guðlaug Bergsveinsdóttir

Ágrip:

Forystufé er sérstakur hluti af íslenska sauðfjárstofninum. Það minnir á geitur í útliti, er grannvaxið og háfætt. Það er þó ekki ræktað til manneldis, heldur vegna persónuleika og hæfileika til að skynja veðrabreytingar. Forystufé er ræktað enn í dag, en á fyrri hluta 20. aldar leit út fyrir að stofninn yrði útdauður vegna sjúkdóma og breyttra búskaparhátta. Markmið erindisins verður umfjöllun um hvernig þessi stofn varðveittist: hvernig hafði orðræða áhrif á varðveislu forystufjár? Hvernig hafa frásagnir af því breyst á síðustu 100 árum? Fyrirlesturinn byggir á rannsókn höfundar sem tók viðtöl við sauðfjárbændur til að fræðast um viðhorf þeirra og ástæður fyrir ræktun á fé sem hefur fáa augljósa arðbæra eiginleika. Viðtölin voru skoðuð með tilliti til orðræðu og sagnahefða. Ásamt því voru þau borin saman við tímaritsgreinar síðustu 100 árin og bókina Forystufé, sem er stærsta safn af sögum um forystufé. Í ljós kom að orðræðan kallaðist sterkt á við orðræðu um óáþreifanlegan menningararf. Það var ekki fyrr en endalok stofnsins blöstu við sem að ráðamenn og bændur tóku við sér og kölluðu eftir aðgerðum. Viðtölin varpa ljósi á hvernig sögurnar hafa breyst síðustu 100 árin og lýsingarnar farið frá því að vera næstum goðsagnakenndar yfir í venjulegri og hversdagslegri. Ásamt því má sjá hvaða gildi voru í hávegum höfð, en áhersla var lögð á hreinræktun og persónuleika fjárins. Glöggt má sjá að féð hefur nú fengið nýjan tilgang og ímynd. Ánægjan sem bændurnir segjast hafa af því að umgangast féð skiptir meira máli en hagkvæmni og arðbærni.

Efnisorð: Forystufé, Óáþreifanlegur menningararfur, Eigindlegar rannsóknaraðferðir, Þjóðfræði


Örnefni, sagnir og sambúð manns og náttúru

Höfundar: Jón Jónsson

Ágrip:

Í meira en 100 ár hefur staðanöfnum og örnefnum verið safnað skipulega hér á landi, bæði í tengslum við kortagerð og með söfnun Örnefnastofnunar Íslands sem nú er hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í gangi eru stór verkefni, búið er að gera örnefnaskrárnar aðgengilegar á vefnum nafnid.is og í gangi er verkefni hjá Landmælingum í samvinnu við Árnastofnun um að staðsetja örnefnin. Er þá búið að safna nógu af efni um örnefni? Starfsfólkið hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu hefur unnið að nokkrum smærri verkefnum sem tengjast örnefnum síðustu misseri. Þau hafa einkum snúist um þjóðtrúarstaði á Ströndum, m.a. álagabletti og aftökustaði. Aðferðin hefur einkum byggst á undirbúningsrannsóknum á efni í arkífum og í framhaldinu viðtölum og athugun á vettvangi. Nú eru tímamót í þessum rannsóknum, því fengist hefur styrkur úr þýska rannsóknasjóðnum fyrir þriggja ára samvinnuverkefni með dr. Matthias Egeler, þýskum fræðimanni. Okkar mat er að enn sé þörf á að safna frekari fróðleik á svæðum þar sem byggð á í vök að verjast eða miklar breytingar hafa orðið á búskaparháttum. Í erindinu verður fjallað um samspil og samhengi örnefna, þjóðtrúar, sagnamennsku og landslags. Áhugaverð álitamál koma þar við sögu, en sérstök áhersla verður lögð á að ræða hvernig þekking á menningararfinum í landslaginu glatast, þar á meðal örnefnin sjálf og staðsetning þeirra.

Efnisorð: örnefni, menningarlandslag, menningararfur


Hvað táknar hún nú?: slóð fjallkonunnar inn í samtímann

Höfundar: Anna Karen Unnsteins, Kristinn Schram, et.al.

Ágrip:

Hlutverk fjallkonunar er rótgróið í í þjóðhátíðardegi Íslendinga og mörgum mikilvægt. Í sögulegu samhengi á hún sér uppruna sem tákn landsins innan tengslaneta Sigurðar Guðmundssonar og síðar sem tákn ríkisvalds í höndum íslenskrar valdastéttar. Nýlegar rannsóknir sýna þó slóð fjallkonunar inn í samtímann sem mörkuð er rómantískum upphafsmyndum, menningarpólítík og jafnvel óræðni á tímum aukins margbreytileika í samfélaginu. Viðtals- og vettvangsrannsóknir á meðal fjallkvenna nútímans, og þeirra fjölmörgu sem að þeim koma, lýsa ólíkri reynslu af því að vera í gervi hennar, ólíkum birtingarmyndum og þeim, oft mótsagnakenndu, hreyfiöflum sem búa að baki. Með þátttökuathugunum, könnunum og sjónrænum rannsóknaraðferðum skoðum við þá ímyndarheima, sjálfsmyndarsköpun og orðræðu sem birtist á mörkum hversdagsmenningar í nútimanum, þar á meðal í fatnaði, tísku og menningararfi. Við reynum á undirstöðu þeirrar tvíhyggju sem stillir hefðbundnum klæðnaði og tísku nútímans upp sem andstæðum og spyrjum hvort performansinn á fjallkonunni, vísi umfram allt á sjálfan sig eins og á fjórða stigi Jean Baudrillard um þróun ímynda. Í þessu erindi verður sérstaklega gerð grein fyrir nýrri könnun meðal almennings á því hvað fjallkonan táknar og verða niðurstöðurnar ræddar með vísan til fyrrgreindrar umræðu.

Efnisorð: menningararfur, ímyndir, fjallkonan


Omamori´: Gildi verndargripa í japanskri menningu

Höfundar: Gunnella Þorgeirsdóttir

Ágrip:

Bæði Shinto og Búdda hof í Japan einkennast gjarnan af miklu úrvali verndargripa sem eiga að geta veitt þeim sem þau versla allt frá velgengni í starfi og námi, og tilþess að geta verndað einstaklinga fyrir óhöppum og slysum. Þessa verndargripi má versla bæði til eigin nota sem og fyrir aðra og hagnast hofin verulega á þessum viðskiptum. Verndargripir í ýmsum birtingamyndum hafa einkennt allflest samfélög á einhverjum tímapunkti, til að mynda hið vel þekkjanlega bláa auga við miðjarðahafið og svo galdrarúnir hér heimafyrir. Hins vegar vaknar sú spurning hver sé þörfin fyrir þessa hefð í hinu háþróaða Japan nútímans, er þetta máski einungis viðskipta element fyrir hofin, eitthvað sem sterk hjátrúarfullir og gamalmenni sækja í, eða liggur eitthvað meira hér að baki? Núverandi rannsókn sýnir að gildi þessara gripa virðist einungis hafa dafnað á síðustu árum sem myndi benda til þess að hefðin þjóni enn töluverðum samfélagslegum tilgangi. Í fyrirlestrinum verður farið lauslega yfir sögu verndargripa í Japanskri menningu, nútíma birtingamyndir þeirra skoðaðar sem og viðhorf almennings. Efnistök eru hluti af áframhaldandi rannsókn á þróun hefða í Japönsku samfélagi sem byggist upp á viðtölum og þáttökuathugunum með samanburði við ritaðar heimildir.

Efnisorð: Þjóðfræði, Japan, Verndargripir, Talisman, Omamori, Shinto


Upplýsingar
Upplýsingar