Þverfræðileg málstofa um víðtæk áhrif COVID-19

Málstofustjóri: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson
Til hvers að mæta? Covid-19 og reynsla framhaldsskólanema

Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna skuldbindingu ungmenna til náms og skóla (stundent engagement) og afleiðingar Covid-19 á þessa reynslu. Tekin hafa verið viðtöl við 20 nemendur sem stunduðu nám á fyrsta til öðru ári í framhaldsskóla undangengið vor í mismunandi námi og skólum. Gangasöfnun stendur enn yfir. Spurt er um viðhorf til skólans, námsins, kennslunnar, samskipta við kennara, samnemendur og félagslíf og stuðnings frá skóla og fjölskyldu. Meginfókusinn er á áhrif Covid-19 á þessa þætti. Bæði í fræðikenningum og skólastarfi er litið svo á að skuldbinding til náms og skóla sé lykilþáttur í farsælli skólagöngu nemenda. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að skuldbinding skiptir miklu  um námsgengi ungmenna og að eftir því sem hún dvínar því meiri líkur eru á brotthvarfi frá námi. Unglingsárin eru sérstakt áhættutímabil þar sem skuldbinding minnkar að jafnaði á þessum árum en rannsóknir skortir á ástæðum þess. Við teljum að þær óvenjulegu aðstæður sem sköpuðust í skóla og samfélagi við Covid-19 gefi einstakt tækifæri til að auka skilning á hvernig skuldbinding mótast af samspili einstaklingsins og umhverfis hans á þessu viðkvæma aldursskeiði. Í erindinu verða fyrstu niðurstöður þessarar viðmiklu rannsóknar kynntar en þær eru enn í vinnslu. Vonast er til að þær nýtist bæði í forvörnum gegn brotthvarfi og í vinnu með þeim sem horfið hafa frá námi.

Kristjana Stella Blöndal

Lykilorð: Covid-19, skuldbinding nemenda, forvarnir

Upplifun leiðtoga á Íslandi af álagi, áskorunum og bjargráðum á tímum heimsfaraldurs COVID-19

Á tímum heimsfaraldurs COVID-19 reynir verulega á grunnstoðir íslensks samfélags sem treystir nú sem aldrei fyrr á bæði kven-og karlleiðtoga innan heilbrigðisþjónustunnar og menntakerfisins sem daglega standa frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum og eru á sama tíma að leiða fylgjendur sína áfram í átt að sameiginlegu markmiði sem snýst um líf og heilsu samstarfsfólks, skjólstæðinga og nemenda. Að því að best er vitað eru ekki fyrirliggjandi rannsóknir sem dýpka þekkingu á reynslu leiðtoga sem standa í framlínunni af álagi, áskorunum og bjargráðum við þessar fordæmalausu aðstæður. Markmið doktorsrannsóknarinnar er að auka þekkingu á upplifun karla og kvenna af álagi, áskorunum og bjargráðum í starfi sínu sem leiðtogar í heilbrigðis- og menntakerfinu á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Með eigindlegri aðferð fyrirbæra­fræðinnar er lögð fram rannsóknarspurningin: Hvernig er að vera kven-og karlleiðtogi á Íslandi á tímum heimsfaraldurs með hliðsjón af álagi, áskorunum og bjargráðum? Frumniðurstöður fyrsta hluta rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að marg­þættum, flóknum og áður óþekktum áskorunum sem leiðtogar innan menntakerfis stóðu frammi fyrir vorið 2020, var mætt með samvinnu, auðmýkt, umhyggju og áræðni. Niðurstöðurnar gefa mikilvæg tækifæri til  hagnýtingar innan menntakerfis og meðal leiðtoga og stjórnenda sem standa frammi fyrir krefjandi aðstæðum og áskorunum.

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir

Lykilorð: leiðtogar, Covid-19, bjargráð

Hvernig horfir kjaradeila Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair við, út frá sjónarhorni vinnumarkaðsfræðanna?

Þann 19. júlí s.l. undirituðu Flugfreyjufélag Íslands, FFÍ og Icelandair kjarasamning. Tveimur dögum áður hafði Icelandair slitið kjaraviðræðum við FFÍ og sagt upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum. Félagið tilkynnti ennfremur að það myndi hefja viðræður við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði. Einnig var það tilkynnt að flugmenn félagsins myndu starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð í flugvélum Icelandair. Við samþykkt kjarasamningsins voru uppsagnirnar dregnar til baka. Þessi rannsókn fjallar um þessa kjaradeilu frá sjónarhorni vinnumarkaðsfræðanna. Hér er um margt óvenjulega vinnudeilu að ræða. Félagsmenn FFÍ og störfuðu hjá Icelandair voru búnir að vera samningslausir í 18 mánuði. Svo gerist það, mitt í kjarasamningaiðræðunu að yfir heiminn gengur heimsfaraldur kórónuveiru sem um tíma stöðvaði nánast allt farþegaflug í heiminum sem kallaði á umfangsmikilar hagræðingaraðgerðir. Við þessar fordæmalausu aðstæður var FFÍ og Icelandair að reyna að ná samkomulagi um kaup og kjör. Hér er um mjög óvenjulega vinnudeilu að ræða sem á sér vart hliðstæðu á íslenskum vinnumarkaði. Hér verður þessi vinnudeila skoðuð út frá sjónarhorni vinnumarkaðsfræðanna og þeirra samskipta sem hafa þróast á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugi, og byggir á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson

Lykilorð: kjarasamningur, vinnulöggjöf

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 15:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 16:45
 • Zoom Meeting id: 649 4985 9109
Höfundar erinda
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 15:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 16:45
 • Zoom Meeting id: 649 4985 9109