Ungmenni, nám og tómstundir

Málstofustjóri: Meyvant Þórólfsson
Hvað er það sem „aðrir“ ekki sjá í starfi félagsmiðstöðva?

Hvað er það í starfi félagsmiðstöðva sem er flestum öðrum hulið en þeim sem vinna á vettvangi og hvernig samræmast þeir starfsþættir markmiðum starfseminnar? Í þessari rannsókn, sem byggir á viðtölum við tólf núverandi og fyrrverandi starfsmenn félagsmiðstöðva á aldrinum 20 -75 ára, styðst höfundur við s.k. storytelling method. Höfundur biður viðmælendur að segja sögu úr starfinu sem viðkomandi telur til góðra starfshátta en um starfsþætti sem eru öðrum en innvígðum ósýnilegir. Rann­sakandi greinir frásagnir út frá þeim markmiðum sem starfsemi félagsmiðstöðva eru sett samkvæmt starfsskrá Skóla- og frí­stundasviðs Reykjavíkurborgar um virka þátttöku, reynslu­nám, lýðræði og mannréttindi og forvarnarstarf. Einnig er stuðst við hugmyndir finnska fræðimannsins Nieminen um félags­mið­stöðvar sem vettvang til þess að efla borgaravitund (e. citizen­ship) og auka sjálfefli (e. empowerment) þeirra sem sækja starf­semina. Í þessu erindi eru kynntar frumniðurstöður úr rann­sókninni. Helstu niðurstöður eru þær að efnistök sagnanna falla að öllu leyti undir þau markmið sem starfseminni eru sett en með mismunandi hætti. Flestar á sviði sjálfseflingar einstaklinga og á sviði forvarna og fyrirbyggjandi starfs. Þar með er ekki sagt að öðrum markmiðum starfseminnar sé ekki sinnt. Ástæðan er fremur sú að þeir þættir séu að mati þátttakendanna mörgum kunnir s.s. starfsþættir eins og opið starf þ.e. opin hús, fræðslu­starf, hópastarf og skemmti- og menningartengd starf­semi.

Árni Guðmundsson

Neysla, nýting og nýsköpun

Í erindinu verður fjallað um nýtt námsefni í textíl- og neytendafræðum undir yfirheitinu Neysla, nýting og nýsköpun. Námsefnið er hugsað fyrir grunnskóla sem og framhaldsskóla með áherslu á sjálfbærni, umhverfisvitund, neytendalæsi, endur­nýtingu og nýsköpun. Mikilvægt er að þjálfa hjá ungum neytendum gagnrýnið viðhorf sem styrkir þá til að skoða eigin neyslu og samfélagsins í heild þannig að þeir geti í auknum mæli greint og metið og tekið sjálfstæða afstöðu og ákvörðun þegar kemur að vöruvali. Markmiðið er einnig að auka skilning nemenda á sjálfbærri þróun og hvernig hægt er að lengja líftíma fatnaðar og annarra textílafurða með því að setja þær í nýtt samhengi, breyta eða bæta á einhvern hátt og endurskapa. Samkvæmt hæfniviðmiðum í textílmennt í Aðalnámskrá grunn­skóla er tekið fram að í textílnámi sé mikilvægt að nemendur greini, meti og setji textíl í samhengi við umhverfi, menningu, listir, nýsköpun og hagnýtingu þekkingar. Í textílnámi er unnið með efni af ólíkum toga allt frá umhverfisvænum hráefnum til mengandi iðnaðarvöru og því mikilvægt að stuðla að umhverfis­vitund nemenda með áherslu á endurnýtingu og sjálfbærni. Eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem gilda á tímabilinu 2016-2030 er að stunda ábyrga neyslu og framleiðslu og að nýta umhverfisvæna tækni þannig að sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð. Kynnt verður mark­miðið með námsefninu, innihald þess og uppbygging sem og kennslumöguleikar.

Ásdís Ósk Jóelsdóttir

MACOS fyrirbærið – Mannfræði sem meginviðfangsefni í menntun

Eitt áhugaverðasta tímabilið í sögu 20. aldar var án efa geim­kapphlaup stórveldanna á 6. og 7. áratug aldarinnar. Vegna lakrar frammistöðu Vesturlandanna í því kapphlaupi beindust augu manna að menntakerfinu og meintu andvaraleysi þar. Af­leiðingin varð firnamikil umbótabylgja á sviðum helstu fræði­greina skólakerfisins. Í Bandaríkjunum leit hvert viðreisnar­verkefnið á fætur öðru dagsins ljós; í heild birtust þau mönnum sem bókstafasúpa: PSSC, SMSG, CHEM, BSCS, ESCP, ESS, IPS, NSF, NSS og MACOS. Einkum var tekið mið af tillögum aka­demískra fræðimanna í stærðfræði, raunvísindum og félagsfræði. Það þótti nýlunda að slíkar raddir hlytu meira vægi við námskrár­þróun, en raddir uppeldis- og kennslufræðinga. Að margra mati hafði síðastnefnda verkefnið, Man, A Course of Study, sérstöðu af því það snerti nokkur námssvið skólakerfisins og að auki mannfræði með tengingu við þróunarkenningu Darwins. Jafnframt þótti það fela í sér óheppilegar félagspólitískar skír­skotanir um stöðu manneskjunnar sem lífveru (dýrs) á jörðinni og ögrun við gildi og hefðbundna menntun vestrænnar menningar. Boðskapurinn þótti upphefja frumbyggjatrúarbrögð og gildi þróunarlanda, en vanvirða um leið kristileg gildi Vestur­landa. MACOS byggði á þremur megin spurningum: Hvað er mann­legt við manneskjuna? Hvernig varð manneskjan þannig? Hvernig má gera hana að enn meiri manneskju? Í erindinu er rýnt í greinar og ritgerðir um MACOS-verkefnið auk viðtala við íslenska skólamenn sem áttu hlut að máli við innleiðinguna hérlendis.

Meyvant Þórólfsson

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45