Upplýsingafræði í almannahag og opin vísindi – Þekking til framtíðar

Málstofustjóri: Ágústa Pálsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um rannsóknir í upplýsingafræði og mikilvægi opinna vísinda.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Í sérhverjum degi býr tækifæri til nýrrar reynslu: Reynsla sænskra upplýsingafræðinga af þróun gagnaþjónustu

Rannsóknarmenning háskóla um allan heim er að breytast í opnum vísindum sem koma með félagslegar, menningarlegar og tæknilegar breytingar á framkvæmd rannsókna. Stefnur um opin gögn gera kröfur um að rannsóknargögn eiga að var aðgengileg á netinu, ókeypis og endurnýtanleg. Rannsakendur hafa þörf fyrir gagnaþjónustu til að skipuleggja, geyma, varðveita og deila rannsóknargögnum í gegnum allt rannsóknarferlið frá byrjun til enda. Háskólabókasöfn hafa þekkingu og færni til að þróa gagnaþjónustu í samstarfi við aðra aðila innan háskólanna. Í erindinu verður fallað um rannsókn sem miðaði að því að afla þekkingar um hvernig gagnaþjónustu háskólabókasöfn hafa þróað og eru að bjóða rannsakendum í Svíþjóð. Einnig var reynt að öðlast skilning á reynslu sænskra upplýsingafræðinga við að takast á við breytta menningu við stjórnun rannsóknargagna og skoða hvaða þættir styrkja þetta ferli. Staða stjórnunar rannsóknargagna á Íslandi var einnig skoðuð. Notaðar voru eigindlegar rannsóknaraðferðir og tekin viðtöl þar sem þátttakendur voru fimm sænskir upplýsingafræðingar sem vinna við gagnaþjónustu í Svíþjóð og þrjá aðila úr íslensku háskólasamfélagi með reynslu af stjórnun rannsóknargagna. Nálgun grundaðrar kenningar í anda Kathy Charmaz var notuð til að rýna í ferlin sem hafa áhrif á rannsóknarmenninguna og hvernig gagnaþjónusta er þróuð. Í erindinu verða helstu niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.

Pia S. Viinikka og Ágústa Pálsdóttir

Lykilorð: gagnaþjónusta, háskólabókasöfn

Gagnaþjónustan GAGNÍS: Opin vísindagögn í þágu þekkingar, sköpunar og almannahagsmuna

Gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi (GAGNÍS) var stofnuð í árslok 2018 og tekur við rannsóknagögnum, hýsir þau og veitir aðgang að þeim í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið. Opin gögn sem eru aðgengileg og auðnýtanleg eru grunnur að framþróun rannsókna og þekkingu á samfélaginu. Ekki síst eru þau forsenda fyrir grundaðri samfélagslegri stefnumótun og ákvarðanatöku. Gögn sem hýst eru hjá GAGNÍS munu nýtast fræðafólki innan og utan Háskóla Íslands, í rannsóknum á sviði félags- og menntavísinda og á öðrum sviðum. Greint verður frá uppbyggingu og starfsemi GAGNÍS sem tekur mið af alþjóðlegum FAIR viðmiðum um umsýslu vísindagagna (FAIR Guiding Principles for Scientific Data Management). Viðmiðin leggja áherslu á að rannsóknagögn sem safnað er fyrir almannafé séu aðgengileg öllum til lengri tíma og að ekki aðeins fólk geti fundið og skilið gögnin heldur einnig vélar (e. machine learning). Gefið verður yfirlit yfir þau gagnasöfn sem þegar eru í opnum aðgangi hjá GAGNÍS og söfn sem eru væntanleg í gagnagrunninn.

Örnólfur Thorlacius og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir

Lykilorð: gagnaþjónusta, opin vísindi

Hindranir varðandi heilbrigðisupplýsingar – Upplifun fólks sem er 18 ára og eldra

Fjallað verður um könnun þar sem markmiðið var að skoða hvernig fólk upplifir hindranir varðandi heilbrigðisupplýsingar. Með því að bera kennsl á hindranir sem fólk upplifir leitast rannsóknin við að stuðla að aukinni þekkingu um hvernig efla megi möguleika fólks til að afla sér fræðslu um heilsusamlegt líferni. Svara verður leitað við eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hvaða hindranir upplifa mismunandi hópar Íslendinga varðandi aðgang og notkun á heilbrigðisupplýsingum. Notaðar voru megindlegar aðferðir, gagna var aflað frá 1.800 manna tilviljunarúrtaki fólks 18 ára og eldri í janúar 2019. Svarhlutfall var 39%. Auk bakgrunnsspurninga um menntun, kyn og aldur, samanstóð mælitækið af alls 15 spurningum, í formi fullyrðinga. Þrjár vísa til hindrana sem fólk stendur frammi fyrir varðandi þær kringumstæður sem það býr við, til skoðana um framboð upplýsinga og fimm til getu til að velja og túlka upplýsingar,  tvær vísa til möguleika til að nota upplýsinga- og samskiptatækni. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þátttakendur upplifi hindranir í tengslum við heilbrigðisupplýsingar. Rúmlega helmingur þátttakenda í öllum samfélagshópum var sammála um að sex af fullyrðingunum lýsi hindrunum og rúmlega 40% voru sammála þremur fullyrðingum til viðbótar. Rúmlega 60% töldu þrjár fullyrðingar ekki lýsa hindrunum. Í erindinu verða niðurstöður kynntar og áhersla lögð á greiningu eftir menntun, kyni og aldri þátttakenda.

Ágústa Pálsdóttir

Lykilorð: upplýsingalæsi, hindranir, heilsuupplýsingar

Upplýsingafræðingurinn sem fagaðili og hugmyndir um breytingar í starfsemi almenningsbókasafna – Alþjóðlegur samanburður

Mikil gróska hefur verið víða erlendis í starfsemi almenningsbókasafna sem tengist breyttum hugmyndum um bókasöfnin sem almenningsrými og þjónustu þeirra við almenning. Í erindinu verður fjallað um alþjóðlega rannsókn á starfsemi almenningsbókasafna. Auk Íslands tóku þátt Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Pólland og Ungverjaland. Markmiðið er að fá innsýn í hugmyndir upplýsingafræðinga um það hvernig starfsemi almenningsbókasafna hefur þróast og hvernig þeir skilgreina sitt hlutverk við að styðja við uppbyggingu almenningsrýma. Tilgangurinn er að athuga að hversu miklu leyti viðhorf þátttakenda endurspegla annars vegar sameiginlega sýn þeirra á hlutverk almenningsbókasafna sem og sitt eigið hlutverk sem fagaðilar og hins vegar hvernig þau endurspegla mun sem skýra má með mismunandi aðstæðum milli landa og menningarlegu samhengi. Leitað verður svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1) Hvernig réttlæta upplýsingafræðingar notkun opinberra fjárveitinga til að halda uppi þjónustu almenningsbókasafna? 2) Hvernig líta upplýsingafræðingar á hlutverk almenningsbókasafna sem almenningsrými? 3) Hvaða aðrar starfsstéttir tengja upplýsingafræðingar við verkefnin sem þeir sinna í daglegu starfi? Rannsóknin er megindleg og var gagna aflað með því að senda könnunina í tölvupósti til starfsmanna almenningsbókasafna haustið 2018. Í erindinu verður athygli beint að viðhorfi starfsmanna á almenningsbókasöfn sem opinber rými, sem og nálgun þeirra á stafræna og félagslega þætti í starfseminni. Áhersla verður lögð á að setja íslenskar niðurstöður í samhengi við niðurstöður annarra þátttökulanda.

Jamie Johnston og Ágústa Pálsdóttir

Lykilorð: almenningsbókasöfn, stafrænir þættir, félagslegir þættir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt
Annað / Other
Sérfræðingur
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45