Upplýsingafræði í almannaþágu – þekking til framtíðar

Málstofustjóri: Ágústa Pálsdóttir
Almenningsbókasöfn – Upplýsingafræðingurinn sem fagaðili og hugmyndir um breytingar í starfsemi safnanna

Mikil gróska hefur verið víða erlendis í starfsemi almenningsbókasafna sem tengist breyttum hugmyndum um bókasöfnin sem almenningsrými og þjónustu þeirra við almenning. Í erindinu verður fjallað um alþjóðlega rannsókn á starfsemi almenningsbókasafna, með áherslu á íslenskan hluta hennar. Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í hugmyndir upplýsingafræðinga um það hvernig starfsemi almennings­bókasafna hefur þróast og hvernig þeir skilgreina sitt hlutverk við að styðja við uppbyggingu almenningsrýma. Tilgangurinn er að athuga að hversu miklu leyti viðhorf þátttakenda endurspegla annars vegar sameiginlega sýn þeirra á hlutverk almenningsbókasafna sem og sitt eigið hlutverk sem fagaðilar og hins vegar hvernig þau endurspegla mun sem skýra má með mismunandi aðstæðum milli landa og menningarlegu samhengi. Leitað verður svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1) Hvernig réttlæta upplýsingafræðingar notkun opinberra fjárveitinga til að halda uppi þónustu almenningsbókasafna? 2) Hvernig líta upplýsingafræðingar á hlutverk almennings­bókasafna sem almenningsrými? 3) Hvaða aðrar starfsstéttir tengja upplýsingafræðingar við verkefnin sem þeir sinna í daglegu starfi? Rannsóknin er megindleg og var gagna aflað með því að senda könnunina í tölvupósti til starfsmanna allra almenningsbókasafna á landinu haustið 2018. Könnunin var ítrekuð tvisvar og var heildarsvarhlutfall 39%. Í erindinu verður áhersla lögð á íslenskan hluta rannsóknar og verða fyrstu niðurstöður úr rannsókninni kynntar.

Jamie Johnston og Ágústa Pálsdóttir

Lykilorð: almenningsbókasöfn, upplýsingafræðingar, starfsemi

Notkun upplýsingatækni við öflun heilsuupplýsinga meðal fólks sem er 60 ára og eldra

Fjallað verður um könnun þar sem markmiðið var að skoða hvernig fólk hefur tileinkað sér nýjungar í upplýsingatækni í tengslum við öflun og miðlun heilsuupplýsinga. Leitað verður svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum:1) Hvernig notfæra einstaklingar sem eru 60 ára og eldri sér tækninýjungar til að afla upplýsinga um eigin heilsu? 2) Hvernig meta þeir getu sína til að byrja að nota nýja upplýsingtækni? 3) Hvernig meta þeir möguleika sína til að fá aðstoð við að notfæra sér upplýsingatækni? Notaðar voru megindlegar aðferðir og gagna aflað frá 1.800 manna tilviljunarúrtaki fólks 18 ára og eldri í janúar 2019. Svarhlutfall var 39%. Gögnin eru vigtuð eftir kyni, aldri, búsetu og menntun til þess að þau endurspegli sem best þýðið. Allar niðurstöður byggja á vigtuðum gögnum. Í erindinu verður áhersla lögð á að kynna niðurstöður um þátttakendur sem tilheyra tveimur elstu aldurshópunum, annars vegar fólk á aldrinum 60 til 67 ára og hins vegar 68 ára og eldra. Alls tóku 165 manns manns 60 ára og eldri þátt, 66 þeirra voru á aldrinum 60 til 67 ára og 99 voru 68 ára eða eldri. Kynntar verða niðurstöður þar sem rýnt verður í mun eftir aldri, kyni og menntun þátttakenda.

Ágústa Pálsdóttir

Lykilorð: eldri borgarar, upplýsingatækni, heilsuupplýsingar

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 698 5822 4751
Höfundar erinda
Aðjúnkt
Annað / Other
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 698 5822 4751