Úr ýmsum áttum I: Samfélag, sjálfbærni, nýsköpun og þátttaka

Málstofustjóri: Halldór S. Guðmundsson

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fyrirtækið og hlutverk þess og ákvörðunartaka

Þetta erindi varðar spurninguna: Hvert er eiginlegt hlutverk fyrirtækis? Þessari spurningu er hægt að skipta í tvær undirspurningar. Í fyrsta lagi, hvers krefjast lögin af stjórn eða stjórnendum fyrirtækis? Annað er, hvað eiga stjórnendur að gera? Til að svara fyrri undirspurningunni er lögfræði- og viðskiptafræðilega tilvist fyrirtækisins skoðuð. Til að svara seinni spurningunni er velt upp kenningum um fyrirkomulag ákvarðanatöku innan fyrirtækja og umboð til ákvarðanatöku. Þegar misbrestur á sér stað varðandi að ákvörðunartaka stjórnenda fylgi hlutverki fyrirtækja er viðskiptafræðilega sagt að sú ákvörðunartaka sé byggð á umboðsvanda. Dæmi um mögulegan umboðsvanda í ákvarðanatöku stjórnenda fyrirtækja eru ákvarðanir stjórnenda um aðgerðir að hálfu fyrirtækis er t.d. varða samfélagslega ábyrgð, umhverfismál, félagslegt réttlæti etc.

Hægt er að flokka viðskiptafræðilegar kenningar sem leitast til að svara þessum tveimur undirspurningum sem þannig veita svar við spurningunni í tvo flokka, þröngt hlutverk fyrirtæksins og vítt hlutverk fyrirtæksins. Reifaðar verða nokkrar af þeim helstu kenningum og mátaðar við upphafsspurninguna: Hvert er eiginlegt hlutverk fyrirtækis?

Ársæll Valfells

Lykilorð: fyrirtækið, samfélagsleg ábyrgð, viðskiptafræði

Kirkja sem hlustar: Jarðvegur nýsköpunar í safnaðarstarfi

Markmið rannsóknarinnar er að kanna aðstæður nýsköpunar innan safnaða þjóðkirkjunnar en nýsköpun er forsenda framþróunar í heimi örra breytinga. Er þetta fyrsta rannsóknin sem tekur á þessum þáttum. Unnið var á sviði nýsköpunarfræða, það er hönnunarhugsun (e. design thinking) og nýsköpunaraðferðar (innovators method) og guðfræði, sem sneri að grunni þjóðkirkjunnar og sálgæslu þar sem reynir á virka hlustun. Snertiflötur nýsköpunar og guðfræði er hugtakið hluttekning (e. empathy): að geta séð heiminn með augum annarra.  Gerð var megindleg og eigindleg rannsókn. Sendur var spurningalisti til presta og formanna sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi (62% svarhlutfall). Þátttakendur tóku afstöðu til fullyrðinga um nýsköpun og tilgreindu dæmi. Við eigindlega rannsókn var myndaður rýnihópur þar sem sátu þrír prestar og þrír sóknarnefndarformenn. Kynjaskipting var jöfn. Stuðst var við aðferð fyrirbærafræðinnar þar sem byggt er á reynslu og upplifun einstaklinga. Fræðilegt sjónarhorn beindist að því hvernig hluttekning endurspeglast við nýsköpun á þjónustusvæðum þátttakenda. Niðurstöður megindlegrar rannsóknar gefa vísbendingu um vitund þátttakenda fyrir mikilvægi gagnvirkra samskipta við markhópa þegar kemur að nýsköpun. Niðurstöður eigindlegrar rannsóknar eru að þátttakendur hafa köllun og tilgang sem hvetur til nýsköpunar. En þörf er á skilvirkari vinnubrögðum. Breyta þarf skipulagi þjóðkirkjunnar svo sjálfstæðar einingar njóti  stuðnings frá miðlægri yfirstjórn. Hluttekningu þarf að byggja upp með markvissum hætti í anda þess sem nýsköpunarfræðin kenna.

Skúli S. Ólafsson

Lykilorð: nýsköpun, hluttekning, guðfræði

Samhæfing og sjálfbærni í þjónustu við aldraða

Verulegar breytingar hafa orðið og verða á aldurssamsetningu þjóða. Bætt lífskjör og hækkandi lífaldur samhliða lækkandi fæðingartíðni þýðir að endurmeta þarf áherslur í velferðar- og heilbrigðisþjónustu við eldra fólk.

Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað árin 2021-2030 sem Áratug heilbrigðrar öldrunar. Markmiðið er að samstilla aðgerðir og breyta viðhorfum, hugsun og hegðun gagnvart aldri og öldrun og hlúa betur að getu eldra fólks. Jafnframt þurfi að veita persónumiðaða, samþætta umönnun og heilbrigðisþjónustu og tryggja aðgengi að langtímaumönnun þegar þarf. Virðing og reisn eru lykilhugtökin.

Rekstrar- og tekjuvandi Íslenskra hjúkrunarheimila er viðvarandi og hlutfall faglærðs starfsfólks er undir því sem æskilegt er. Skipulag og fjármögnun hjúkrunarheimila byggir á forsjárhyggju sem vinnur gegn hugmyndum um þátttöku og virkni notenda. Núverandi staða í málaflokknum kallar á nýjar lausnir og leggja þarf aukna áherslu á að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst heima og halda sjálfstæði sínu, reisn og virðingu. Samhæfð heimaþjónusta, sveigjanleg dagdvalarúrræði, aukin tæknivæðing og markviss stuðningur við aðstandendur aldraðra eru þættir sem stuðla að því að draga úr þörf fyrir hjúkrunarrými. Samfélagslegur ávinningur yrði gífurlegur og notendur og aðstandendur, starfsfólkið og síðast en ekki síst ríki og sveitarfélög nytu þess.

Í erindinu verður fjallað um samhæfingu og sjálfbærni markmið tillagna í drögum að stefnu um heilbrigðis- og félagsþjónustu við eldra fólk.

Halldór S. Guðmundsson

Lykilorð: aldraðir, velferðarþjónusta, stefna

Reynsla foreldra af erlendum uppruna sem starfa í sjávarútvegi af því að eiga barn í grunnskóla á Íslandi

Í þessari meistararitgerð var leitast við að varpa ljósi á reynslu foreldra af erlendum uppruna af því að eiga börn í grunnskóla á Íslandi. Sérstaklega var einblínt á foreldra sem starfa í sjávarútvegi á landsbyggðinni en þeir starfa margir hverjir á vinnustöðum þar sem hlutfall starfsfólks af erlendum uppruna er hátt og glíma þar með við ýmsar áskoranir eins og færri tækifæri til að nota íslenskt tungumál í daglegu tali. Skoðuð var sýn og upplifun þessa foreldrahóps af skólastarfinu, náminu, samskiptum við starfsfólk skóla og framtíðarvæntingar tengdar skólagöngu barnanna.

Rannsókninni er ætlað að svara eftirfarandi spurningu: Hver er reynsla foreldra af erlendum uppruna af því að eiga barn í grunnskóla á Íslandi? Í ritgerðinni var fjallað um rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði bæði hérlendis og erlendis, lagalegan grundvöll og opinberar stefnur stjórnvalda.

Rannsóknin byggðist á eigindlegum viðtölum. Tekin voru ellefu hálfstöðluð viðtöl við tólf erlenda foreldra grunnskólabarna en foreldrarnir starfa í sjávarútvegi í fimm bæjarfélögum á Vestfjörðum og einu á Norðurlandi. Viðtölin fóru fram á samtals fjórum tungumálum með aðstoð tveggja túlka en auk þess var hluti viðtalanna tekinn á ensku og eitt fór fram á íslensku.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram ánægja foreldra með uppeldisaðstæður barna á Íslandi og almenn sátt við íslenskt skólakerfi. Margir foreldranna höfðu áhyggjur af ónægri kennslu í íslensku sem öðru máli og veikri stöðu barna sinna á sviði íslensks tungumáls. Talsverður breytileiki kom fram varðandi fjölmenningarlegar áherslur skóla barnanna eins og tengingu við uppruna, móðurmál, íslensku sem annað mál, foreldrasamskipti, túlkaþjónustu og fleira. Í ljós kom að félagsauður foreldranna hafði talsverð áhrif á stöðu þeirra í tengslum við íslenskt samfélag og getu þeirra til að styðja við skólagöngu barna sinna og eins skipti miklu máli hvort þeir töluðu ensku eða voru farnir að ná nokkrum tökum á íslensku.

Helga Björt Möller

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 09:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Annað / Other
Háskólinn á Bifröst / Bifröst University
MA/MS nemi
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 09:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 10:45