Veggspjaldakynning

Vinnutími og vaktavinna í hópum starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði

Mikil umræða hefur verið hérlendis um lengd vinnutíma og vakta­­vinnu, nú síðast í tengslum við kjaraviðræður á almennum og opinberum vinnumarkaði. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða hópar ynnu einkum vaktavinnu og skiluðu löngum vinnu­degi. Rannsóknin byggir á heilbrigðiskönnum meðal slembi­­úrtaks 18-75 ára Íslendinga sem svöruðu spurningalista með pósti eða á netinu á árinu 2015. Spurningarnar vörðuðu meðal annars vinnutíma og umfang vaktavinnu auk bakgrunns­spurninga. Alls svöruðu 1599 einstaklingar spurningalistanum og voru heimtur tæp 60%. Konur voru síður í fullri vinnu og mun síður í reglubundinni yfirvinnu en karlar. Elstu og yngstu starfs­mennirnir voru einnig síður í fullri vinnu og yfirvinnu en starfs­menn á öðrum aldri. Full vinna og yfirvinna var einnig algengari hjá giftum og fráskildum en einhleypum. Þá var yfirvinna al­geng­ari í einkageiranum en hjá hinu opinbera. Karlar voru frekar í vaktavinnu að hluta til, en konur frekar í vaktavinnu að fullu. Vakta­vinna var algengari hjá yngri starfsmönnum en þeim eldri, hjá einhleypum og hjá grunnskólamenntuðum frekar en fram­halds- eða háskólamenntuðum. Vaktavinna var einnig algengari á Reykjavíkursvæðinu en landsbyggðinni. Loks voru starfsmenn sem unnu hjá öðrum frekar í vaktavinnu en þeir sem unnu sjálf­stætt. Rannsóknir benda til að óhóflegt vinnuálag tengist meðal annars löngum vinnudegi og vaktavinnu. Þessir starfs­þættir dreifast með ólíkum hætti meðal einstakra hópa á ís­lenskum vinnu­markaði. Aðgerðir til að bæta aðbúnað vakta­vinnufólks eða stytta vinnutíma hafa því ólíka þýðingu eftir því hvaða starfsmannahópur á í hlut.

Rúnar Vilhjálmsson

Er þörf á að endurskoða löggjöf sem mótar samskipti aðila vinnumarkaðarins?

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 (vinnulöggjöfin), var lögtekin árið 1938. Helsta markmið vinnulöggjafarinnar er að tryggja vinnufrið í landinu. Vinnulöggjöfin skapar ramma fyrir sam­skipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort vinnulöggjöfin, hafi náð megin­markmiðum sínum eða hvort þurfi að gera á henni breyt­ingar. Gerð er ítarleg greining á núverandi vinnulöggjöf. Skoðaðar eru sérstaklega þær breytingar sem hafa verið gerðar á vinnu­löggjöfinni frá árinu 1938 til dagsins í dag. Enn fremur er gerð greining á fyrirkomulagi kjarasamninga og greindar helstu ástæður verkfalla á almennum og opinberum vinnumarkaði. Kannað er, með hliðsjón af þessari greiningu hvort vinnu­lög­gjöfin gegni hlutverki sínu nægilega vel og hvort nauðsyn­legt sé að breyta henni og þá hvernig. Fækka samningseiningum á vinnu­stöðum og minnka líkur á „höfrungahlaupi“. Skerpa þarf á vinnu­lagi við gerð viðræðuáætlana. Kröfugerðir og samnings­áherslur þurfa að vera skýrari. Veita þarf ríkissáttasemjara heimild til að fresta vinnustöðvun. Samræma þarf lagareglur um verk­föll og verkbönn á milli vinnumarkaða. Heimila þarf að fresta boðaðri vinnustöðvun á hinum opinbera vinnumarkaði eftir að hún er hafin. Skerpa þarf reglur varðandi uppsagnir starfsmanna á meðan á vinnudeilu stendur. Kjarasamningar verði afturvirkir. Taka upp sérlög um sáttastörf í vinnudeilum þar sem m.a. verður opnað fyrir leið gerðardóma í langvinnum vinnudeilum.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:00
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:00