Velferð og þjónusta

 


Hvað skýrir hlut félagasamtaka í uppbyggingu þjónustu við fatlað fólk á 20 öld? Niðurstöður sögulegrar greiningar

Höfundar: Ómar Kristmundsson

Ágrip:

Í fyrirlestrinum er fjallað um þá þætti sem leiddu til uppbyggingar velferðarþjónustu á Íslandi til loka 20. aldar, nánar tiltekið þjónusta við fatlað fólk. Í gegnum tíðina hafa íslensk félagasamtök haft frumkvæði að eflingu hennar, bæði með stofnun nýrra úrræða og rekstri. Í fyrirlestrinum er leitast við að svara hvers vegna. Byggt er á niðurstöðum greiningar sögulegra gagna; skýrslum, þingskjölum og sögum félagasamtaka. Notast er við aðferðafræði sögulegrar stofnanahyggju (historical institutionalism), þar sem er lögð er áhersla á að greina samspil áhrifaþátta á sögulega framvindu. Fram kemur að samspil nokkurra þátta skýri þetta hlutverk félagasamtaka. Bent er á tilurð hins borgaralega en fámenna samfélags í ört vaxandi þéttbýli, aukna pólitíska þátttöku kvenna, veikburða stjórnsýsla og tengslanet fulltrúa félagasamtaka, þingmanna og embættismanna. Félagasamtök héldu áfram uppbyggingu velferðarþjónustu allt fram undir lok 20. aldar þó ríkið hafi fjármagnað í auknum mæli starfsemina. Á síðustu tveimur áratugum aldarinnar urðu hins vegar straumhvörf í þjónustu við fatlað fólk með auknu hlutverki ríkis og síðar sveitarfélaga. Í ljósi þessarar sögu er fjallað um framtíðarhlutverk félagasamtaka í velferðarþjónustu.

Efnisorð: Félagasamtök, Þjónusta við fatlað fólk, Stjórnsýsla


Hver sinnir eldri borgurum – hafa orðið breytingar á því hver veitir þjónustu?

Höfundar: Sigurveig H Sigurðardóttir

Ágrip:

Makar og börn hafa lengi verið mikilvægustu umönnunaraðilar eldra fólks sem þarfnast aðstoðar. Tvær rannsóknir um þjónustu og þjónustuþarfir voru gerðar meðal aldraðra á Íslandi (ICEOLD rannsóknirnar) árið 2008 og árið 2018. Markmið rannsóknarinnar 2018 var að kanna hvort umönnun heimabúandi aldraðra 65 ára og eldri, hefði breyst á tíu ára tímabili. Sérstök áhersla var lögð á að kanna hvort breyting hafi orðið á þjónustu frá opinberum aðilum og fjölskyldunni svo og á samvinnu þessara aðila. Notuð var megindleg aðferð, hringt var í þátttakendur 65 ára og eldri, sem bjuggu heima. Þátttakendur voru 782 í fyrri rannsókninni og 885 í þeirri seinni. Niðurstöður sýna að svarendur sem þurftu umönnun fengu meiri stuðning frá opinberum umönnunaraðilum í síðari rannsókninni og umönnun fjölskyldunnar hafði minnkað nokkuð. Makarnir, bæði karlar og konur, eru þeir sem hjálpa mest. Stuðningur frá dætrum/tengdabörnum hafði minnkað en synir/tengdasynir veittu meiri aðstoð við athafnir daglegs lífs (ADL), sérstaklega feðrum/tengdafeðrum sínum. Samstarf formlegra umönnunaraðila og fjölskyldu umönnunaraðila virðist hafa aukist og auðveldað umönnunaraðilum að aðstoða eldri ættingja sína. Rætt verður um niðurstöður rannsóknarinnar í tengslum við þær breytingar sem orðið hafa á framboði þjónustu opinberra aðila. ICEOLD rannsóknirnar sýna að umönnun fjölskyldunnar er mikilvæg fyrir eldra fólk á Íslandi og þær fjölskyldur sem sinna umönnun eldra fólks verða að njóta stuðnings yfirvalda.

Efnisorð: Eldri borgarar, þjónusta, fjölskylda


Fjölþjóðlegar matslistar um styrk- og veikleika eldra fólks – 60 ára og eldri

Höfundar: Halldór Sigurður Guðmundsson

Ágrip:

Fjölgun eldra fólks og breytingar á aldurssamsetningu þjóða er staðreynd. Þessi þróun setur aukinn þrýsting á velferðarþjónustuna til að mæta þörfum stækkandi hóps samhliða kröfum um einstaklingsmiðaða og heildræna þjónustu. Bent hefur verið á að þessi þróun auki þörfina fyrir áreiðanleg matstæki sem þjóni bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu og geri ráð fyrir sjálfsmati einstaklinga og mati annarra. Tveir slíkir listar, sjálfsmatslisti (OASR) og mat annarra s.s. ættingja(OABCL) voru staðfærðir hérlendis árið 2004 og hafa líka verið gefnir út á mörgum tungumálum. Í samvinnu við fjölþjóðlegan rannsóknahóp frá 20 löndum öfluðu íslenskir rannsakendur gagna þar sem listarnir voru lagðir fyrir tilviljunarúrtak 60 ára og eldri. Markmið rannsóknarinnar var að afla viðmiða, athuga þáttabyggingu matslistanna og samræmi í svörum upplýsingagjafa. Í erindinu er fjallað um niðurstöður sem hafa birtst í þremur vísindagreinum og sagt frá öðrum rannsóknum MA-nema og fleiri mælingum. Niðurstöður fjölþjóðleg rannsóknarhópsins hafa lagt grunn að fjölmenningarlegum viðmiðum og staðfest réttmæti einkennaflokkunar samkvæmt listanum í öllum samfélögum sem tóku þátt. Hleðsla spurninga á viðkomandi þátt var há og fylgni í svörum á milli svarendahópa .76 -.80. Þá sýna niðurstöður að heildarbreytileiki milli samfélaga væri 36% varðandi styrkleika einstaklinganna en um 17% varðandi heildarerfiðleika. Niðurstöðurnar gefa tilefni til að mæla með notkun listanna við mat á styrkleikum og líðan hjá ólíkum hópum eldra fólks, til dæmis vegna heilsu- og þjónustumats, samskipta eða rannsókna.

Efnisorð: OASR, OABCL, eldra fólk, aldraðir, matstæki, gagnreynt vinnulag


Seigla samfélaga í kjölfar Eyjafjallajökulgossins 2010 – sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og enduruppbyggingu

Höfundar: Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, Guðrún Gísladóttir, et.a

Ágrip:

Rannsóknin beinir sjónum að seiglu samfélaga vegna náttúruhamfara. Áhersla er lögð á hlutverk bindandi, brúandi og tengjandi félagsauðs og félagslegs stuðnings í endurreisn samfélaga. Kannað var hvaða áhrif Eyjafjallajökulgosið árið 2010 hafði á fjölskyldur búsettar undir Austur-Eyjafjöllum og í Vík í Mýrdal og hvers konar stuðning fjölskyldurnar töldu nauðsynlegan í bataferlinu, hvernig ætti að veita hann og hversu lengi stuðningur þyrfti að vera til staðar til að styðja við bata og enduruppbyggingu samfélaganna. Markmiðið var að öðlast skilning á því hvernig fjölskyldurnar mátu sín félagstengsl og þann félagslega stuðning sem í boði var með tilliti til þarfa þeirra. Stuðst var við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Tekin voru viðtöl við 12 fjölskyldur, sjö undir Austur-Eyjafjöllum og fimm í Vík, alls 44 einstaklinga af þremur kynslóðum. Niðurstöðurnar sýndu að fjölskyldurnar bjuggu við sterk bindandi og brúandi félagstengsl þar sem hlutverk stórfjölskyldunnar var sérstaklega mikilvægt. Tengjandi félagsauður, félagslegur stuðningur á formlegum vettvangi, veitti margs konar stuðning sem fjölskyldurnar mátu mikilvægan. Hins vegar bentu þær á ýmis tækifæri til að efla þann stuðning. Einn af mikilvægari þáttum var skýrt og jafnt aðgengi að félagslegum stuðningi á formlegum vettvangi og að hann yrði veittur eins lengi og þörf krefur. Rannsóknin eykur þekkingu á hlutverki félagslegs stuðnings þegar tekist er á við afleiðingar alvarlegra atburða og undirstrikar mikilvægi félagsauðs í seiglu samfélaga.

Efnisorð: Félagsauður, Félagslegur stuðningur, Seigla samfélaga, Áfallastjórnun, Náttúruhamfarir


Upplýsingar
Upplýsingar