Verðmyndun á fiski og virði aflaheimilda

Málstofustjóri: Oddgeir Ágúst Ottesen

Í málstofunni verða flutt erindi um verðmyndun á fiski og virði aflaheimilda. Nánar tiltekið verður fjallað um áhrif mismunandi uppboðskerfa á fiskmörkuðum á verðmyndun á mörkuðum og um greiningar og mat á virði aflaheimilda sem veðandlag fyrir lánum.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Virði aflaheimilda sem veðandlag

Ein stærsta eign útgerðarfyrirtækja er óefnisleg og felst í réttinum til að veiða ákveðið hlutfall af heildarkvóta einstakra fisktegunda á Íslandsmiðum. Þessi veiðiréttur er í öllum tilfellum á fiskiskipum sem geta síðan verið veðsett fjármálafyrirtækjum. Virði aflaheimilda sem veðandlag getur verið verulega frábrugðið verði þeirra á kvótamörkuðum eða í viðskiptum milli fyrirtækja. Við mat á gæði veðandlags skiptir máli hvert virði veðsins gæti verið ef á reynir. Áætlun um söluverðmæti fiskaflans í framtíðinni er byggð á gögnum frá Hafrannsóknar­stofnun um ástand fiskistofna  og gögnum frá Hagstofu Íslands um aflaverðmæti síðustu ára. Frá núvirtu söluverðmætinu er dreginn frá allur núvirtur kostnaður við veiðarnar. Eftir stendur þá virði veiðiréttarins eða aflaheimildanna. Virði afla­heimildanna var einnig fundið út frá áætlun um að enn væri til staðar hagræðingarmöguleikar í greininni. Verðmæti aflaheimildanna var svo deilt niður á einstakar tegundir, m.a. út frá hlutfalli þeirra í söluverðmæti heildaraflans. Mismunur á verðmæti afla­heimilda tegunda og virði þeirra sem veðandlags er mjög mismunandi. Minnsti munur á virði aflaheimilda fyrir eiganda og virði þess sem veðandlag var í þorski og í safni af mörgum tegundum.

Ægir Páll Friðbertsson og Oddgeir Ágúst Ottesen

Lykilorð: fiskkvóti

Skiptir uppboðsfyrirkomulag á fiskmörkuðum máli?

Fiskuppboð hafa gengt lykilhlutverki í viðskiptum með ferskan fisk hér á landi frá því þau voru fyrst kynnt til sögunnar 1987. Í upphafi voru uppboðin hefðbundin þar sem fiskur var seldur þeim sem viðstaddir voru. Fljótlega þróuðust þau yfir í fjaruppboð, þar sem hvorki varan né kaupandinn þurfti að vera á tilteknum stað til þess að viðskipti gætu farið fram. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel. Það hefur stuðlað að skilvirkni í verðlagningu og miðlun afla og skapað tækifæri fyrir sjálfstæðar útgerðir og fiskvinnslur. Það hefur jafnframt reynst samþættum fyrirtækjum mikil stoð í að jafna út skammtíma misræmi í innra framboði og eftirspurn. Í upphafi voru tvö ólík kerfi notuð við sölu á fiskmörkuðum, ensk og hollensk uppboð. Uppboðskerfin runnu síðan saman á tíunda áratugnum og studdust þá öll um tíma við ensk uppboð.

Kenningar hagfræðinnar segja að á uppboðum með einsleitar vörur eigi uppboðskerfið ekki að skipta máli varðandi verðmyndun. Þó fiskur geti verið einsleitur hefur hann marga eiginleika, s.s. tegund, meðferð, veiðarfæri og ferskleika sem ráða virði hans. Fyrrnefndar breytingar á uppboðskerfi íslensku fiskuppboðanna gefa tækifæri til að prófa þessa kenningu. Metið er dýnamískt Bayesískt hedónskt líkan og kenningin um hlutleysi verðs prófuð innan þess. Niðurstöðurnar benda ekki til þess að uppboðskerfi hafi áhrif á verð.

Birgir Þór Runólfsson og Daði Már Kristófersson

Lykilorð: uppboð

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 10:45
 • Zoom meeting id: 627 0705 1486
Höfundar erinda
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 10:45
 • Zoom meeting id: 627 0705 1486