Verkefnastjórnun

Málstofustjóri: Eðvald Möller

Málstofa um verkefnastjórnun er vettvangur fyrir kynningar á hagnýtum og fræðilegum rannsóknum á sviði verkefnastjórnunar. Markmiðið með miðlun efnis á málstofunni er að efla þekkingu á fræðasviðinu og vitund um málaflokkinn meðal samstarfsfólks, nemenda og einstaklinga í atvinnulífinu.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Getur straumlínustjórnun hjálpað til við að hagræða í rekstri?

Straumlínustjórnun gengur út á að auka virði viðskiptavinarins en á sama tíma að lágmarka kostnað. Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem vilja hagræða í rekstri og ná betri árangri. Markmiðið með rannsókninni var að kanna viðfangsefnið með því að rýna ferli innanlandsböggla sem sendir eru með Íslandspósti, greina núverandi stöðu, gera grein fyrir sóun og koma með umbótatillögur. Jafnframt að lýsa þeim hindrunum sem fyrirtæki í svipaðri stöðu standa frammi fyrir.

Lagt var upp með að rannsaka hvort straumlínustjórnun gæti nýst þegar kemur að viðfangsefnum og hindrunum í stjórnun fyrirtækisins. Til að svara rannsóknarspurningunni var fram­kvæmd tilviksrannsókn með eigindlegum rannsóknaraðferðum en þá eru eitt eða nokkur tilvik rannsökuð í smáatriðum til að þróa eins ítarlegan skilning og mögulegt er á tilvikunum með vettvangsrannsókn. Tekin voru viðtöl við starfsmenn Íslands­pósts og fyrirtækja sem senda böggla-sendingar með Íslands­pósti daglega. Teiknað var upp núverandi ferli innanlands­böggla, gerð grein fyrir sóun og lagðar voru fram umbóta­tillögur. Helstu niðurstöður benda til þess að hægt sé að greina sóun og gera ýmsar umbætur í ferlinu og hjálpa til við að hagræða í rekstri. Niðurstöður munu nýtast Íslandspósti til að vinna að enn frekari úrbótum ef þess er þörf en slíkt getur skilað sér í sterkari stöðu fyrir rekstur fyrirtækisins.

Eðvald Möller

Lykilorð: LEAN, straumlínustjórnun

Áhættustýring vegna veðurs hjá Landsneti hf.

Vinna við raforkuflutningskerfi Landsnets hefur í för með sér margskonar áskoranir og áhættu. Markmið Landsnets er að allir starfsmenn skili sér heilir heim á sál og líkama í lok hvers vinnudags. Veturinn 2019/2020 einkenndist af óveðrum og veðurviðvörunum. Á þessu tímabili var í fyrsta sinn gefin út rauð viðvörun vegna veðurs eftir að nýtt viðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands var tekið í notkun. Veðurviðvaranir og óveðrin sem gengu yfir Ísland á þessum tíma höfðu mikil áhrif á rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets og fyrirtækið þurfti að huga vel að komandi óveðrum til að reyna að minnka áhrif þeirra á rekstur fyrirtækisins.  Markmiðið með rannsókninni var að kanna áhættustýringu, ferla og viðbrögð Landsnets við veðurviðvörunum á Íslandi. Einnig að sjá hvort hún hefði jákvæð áhrif á útkomu verkefna. Til að svara rannsóknarspurningunni var framkvæmd eigindleg rannsókn sem byggir á reynslu og upplifun sex aðila sem upplifðu óveðrin sem gengu yfir Ísland í byrjun desember ársins 2019 til loka febrúar ársins 2020. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að hjá Landsneti sé mikill metnaður og að til staðar sé kerfisbundinn undirbúningur til þess að tryggja rekstraröryggi raforkuflutningskerfisins í landinu. Niðurstöður sýna að fyrirbyggjandi aðgerðir í formi áhættustýringar leiði til þess að mikill viðbúnaður sé til staðar, sem og þekking til að tryggja raforkuöryggi.

Vigdís Lea Birgisdóttir og Eðvald Möller

Lykilorð: áhættustjórnun, ferlar, rekstraröryggi

Lykilþættir sem skapa árangur?

Verkefnastjórnun hefur vaxið sem fagsvið á undanförnum árum. Til marks um það er mikil aukning á fjölda vottaðra verkefnastjóra sem starfa hér á landi. Fyrirtæki stýra einnig stefnumiðuðum markmiðum sínum í síauknum mæli með verkefnavinnu þvert á skipulag. Markmiðið með þessari tvíþættu rannsókn var að draga fram þá lykilþætti sem skapa árangur í verkefnum. Annars vegar er um að ræða megindlega rannsókn á formi spurninga-könnunar sem lögð var fyrir starfandi verkefnastjóra á Íslandi. Hins vegar eigindlega rannsókn á formi viðtala við aðila sem gáfu kost á slíku eftir þátttöku í spurninga­könnun. Markmið rannsóknarinnar var ennfremur að kanna viðhorf verkefna­stjóra hér á landi, bæði verkefnastjóra sem hafa hlotið menntun á sviðinu og þeirra sem hafa ekki menntun á sviðinu, þeirra sem hafa hlotið vottun og þeirra sem ekki hafa hlotið vottun og bera saman við þá þætti sem IPMA og PMI leggja til grundvallar árangursríkri verkefnastjórnun. Niðurstaða rannsóknar var að þó verkefnastjórar hér á landi hafi tileinkað sér hluta aðferðafræði IPMA og PMI þá er enn langt í land með að verkefni séu unnin að fullu eftir þeim grunni. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að oft er árangur ekki í fullu samræmi við upphafleg markmið en meginmarkmið aðferðafræði IPMA og PMI er að ná góðri útkomu úr verkefna­vinnu með viðurkenndum aðferðum. Þátttakendur í rannsókn mátu teymisvinnu, forystu, heilindi og áreiðanleika sem mikilvægustu þætti sem skapa árangur í verkefnum.

Kristján Þorvaldsson og Eðvald Möller

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 660 7437 1178
Höfundar erinda
Sérfræðingur / Specialist
Annað / Other
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 660 7437 1178