,,Snýst fyrst og fremst um mannleg samskipti“

Hvað einkennir árangursrík verkefni að mati stjórnenda? Stjórnun verkefnis er tímabundið ferli sem kemur oftar en ekki þvert inn á deildir fyrirtækja og annarra fagaðila sem þarf að kalla til vegna verkefnisins. Verkefni eru ákveðin út frá stefnu fyrir­tækis en fyrirtækið bregst við breytingum á ytra umhverfi til að ná samkeppnisforskoti. Einnig er æskilegt að gera breytingar ef verkefni sýnir ekki fram á þann árangur sem vonast var eftir. Því getur verið brýn þörf á að mæta þekkingu sem er til staðar á mark­aðinum svo hægt sé að gera enn betur með breyttri afurð en stefna fyrirtækisins þarf um að leið að geta tekið breytingum út frá þörfum viðskiptavinarins. Í rannsókninni var notast við eigind­legar og megindlegar aðferðir til að afla gagna og svara rann­sóknarspurningunni. Átta viðtöl voru tekin við yfir­verkefna­stjóra og mannauðsstjóra hjá sex fyrirtækjum og jafn­framt var lögð spurningakönnun fyrir verkefnastjóra þátt­töku­fyrir­tækjanna. Í rannsókninni er leitast við að gera því skil á hvers konar verkefni ná árangri. Tilgangur rannsóknarinnar var að komast að því hvaða færni og þekkingu árangursríkur verk­efna­stjóri þarf að búa að og lagt var upp með að styðja rann­sóknina með vísan í erlendar rannsóknir. Niðurstöður sýna að mannleg samskipti, skipulagshæfni, leiðtogafærni og tæknileg þekking einkenni verkefni hjá árangursríkum verkefnastjóra.

Eðvald Möller og Birna Dröfn Jónasdóttir

Verkefnastjórinn sem leiðtogi: Mikilvægi leiðtogaeinkenna verkefnastjóra

Með breyttu umhverfi og fjölgun á starfandi verkefnastjórum er mikilvægt að skoða verkefnastjórnun frá öllum sjónarhornum. Breytt starfsumhverfi verkefnastjóra felur í sér flóknari og meira krefjandi verkefni en áður var. Með þessum breytingum hefur mikil­vægi leiðtogahæfni verkefnastjóra aukist ásamt því að forysta er orðin mikilvægur þáttur í starfi þeirra. Til að verkefni séu kláruð á sem farsælastan hátt, með sem jákvæðastri niður­stöðu, er mikilvægt að verkefnastjórinn sé leiðtogi sem hefur hvetjandi áhrif á einstaklingana í kringum sig til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Hér er um leitandi rannsókn að ræða en slíkar rannsóknir falla að eigindlegum rannsóknum. Þær eiga vel við þegar skoðuð eru viðfangsefni sem lítið hafa verið rann­sökuð áður og ekki er hægt að nýtast við staðlaðan spurninga­­lista. Leitandi rannsóknir hafa það að markmiði að þróa hugtök eða spurningar fyrir áframhaldandi rannsóknir. Með rannsókninni er leitast við að svara því hvort verkefnastjórar beri með sér leiðtogaeinkenni og hvort það sé mikilvægt í nútíma­samfélagi og teymisvinnu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að verkefnastjórar bera með sér leiðtogaeinkenni ásamt því að mikilvægt er að þeir beri slík einkenni í nútíma­samfélagi sem og í teymisvinnu.

Birna Dröfn Jónasdóttir og Eðvald Möller

Straumlínustjórnun fyrir skapandi fyrirtæki?

Markmiðið með rannsókninni var að kanna viðfangsefni og hindranir sem skapandi fyrirtæki standa frammi fyrir og hvort straumlínustjórnun gæti komið að gagni við að leysa hin ýmsu vanda­mál. Skapandi fyrirtæki eru mjög mismunandi enda er um vítt hugtak að ræða og fyrirtækin eins ólík og þau eru mörg. Þau eiga það þó sameiginlegt að glíma við einhver vandamál í stjórnun og skipulagi og var lagt upp með það markmið að koma auga á vandamálin, greina og leita leiða til úrbóta. Lagt var upp með að rannsaka það hvort straumlínustjórnun gæti nýst þegar kemur að viðfangsefnum og hindrunum í stjórnun skapandi fyrirtækja. Til að svara rannsóknarspurningunni voru tekin sex viðtöl við stjórnendur og verkefnastjóra skapandi fyrir­tækja þar sem byggt var á eigindlegum rannsóknar­að­ferðum. Helstu niðurstöður gefa vísbendingu um að stjórnun og skipulag skapandi fyrirtækja sé að færast nær aðferðum straum­línustjórnunar og að fyrirtæki séu þegar farin að notast við ýmis tól og aðferðir straumlínustjórnunar, líkt og staðlað verklag, sýnilega stjórnun og stöðugt endurmat svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt vörpuðu niðurstöður ljósi á þær aðferðir og tól sem geta bætt rekstur skapandi fyrirtækja enn frekar.

Svanþór Laxdal og Eðvald Möller

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:45