Vernd uppljóstrara

Málstofustjóri: Friðrik Árni Friðriksson Hirst

Í málstofunni verður fjallað um uppljóstrara og uppljóstraravernd í íslenskum rétti. Ólafur Jóhanness Einarsson ritari EFTA-dómstólsins mun greina frá réttarstöðunni um vernd uppljóstrara samkvæmt gildandi rétti, svo og þróun til verndar uppljóstrurum á alþjóðavettvangi. Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari mun á hinn bóginn fjalla um efnið frá sjónarhóli refsiréttar og sakamálaréttarfars og leitast þar við að svara því til hvaða vernd sé ástæða til eða rétt að uppljóstrurum sé veitt í samhengi við refsirétt. Oddur Þorri Viðarsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu mun kynna frumvarp nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis, sem kynnt hefur verið almenningi í opnu samráði. Þá mun Heiðrún Björk Gísladóttir fjalla um efnið í samhengi við atvinnulífið og viðskiptahagsmuni fyrirtækja, þ. á m. með hliðsjón af áðurgreindu frumvarpi.

Eru leyndarmál sem segja má frá? – Vernd uppljóstrara í íslenskum rétti

Uppljóstrarar, eða einstaklingar sem koma upp um ólögmæta eða ámælisverða háttsemi annarra, hafa sennilega aldrei áður notið eins mikillar samfélagslegrar viðurkenningar. Ljóst er að margar af stærstu fréttum síðari tíma hefðu aldrei komið til nema fyrir atbeina uppljóstrara og opinberanir þeirra hafa velt úr sessi áhrifamönnum í bæði stjórnmálum og viðskiptalífi.

Uppljóstrarar sem stigið hafa fram opinberlega hafa hins vegar allajafna ekki átt miklu persónulegu láni að fagna, enda hefur réttarkerfið yfirleitt ekki farið um þá mjúkum höndum. Í erindinu verður fjallað um hvort uppljóstrarar geti átt sér við­reisnar von samkvæmt núgildandi íslenskum lögum og eins hvaða ályktanir megi draga af nýlegri dómaframkvæmd Mann­réttinda­dómstóls Evrópu um vernd uppljóstrara. Þá verður fjallað um aðra þróun til verndar uppljóstrurum á alþjóða­vettvangi, m.a. nýlega tilskipun ESB um vernd þeirra sem ljóstra upp um brot á ESB-rétti og hvaða áhrif hún geti haft á Íslandi verði hún tekin upp í EES-samninginn.

Ólafur Jóhannes Einarsson

Af steinum og sleggjum og glerhúsum – fáein orð um uppljóstrara frá sjónarhóli refsiréttar og sakamálaréttarfars

Fjallað verður um efnið út frá refsirétti og sakamálaréttarfari og frá sjónarhóli ákæruvaldsins. Leitast verður við að afmarka: hvað er uppljóstrari og hvaða vernd er ástæða til eða rétt að honum sé veitt í samhengi refsiréttar? Hvaða álitaefni eða sið­ferðis­spurningar vakna helst í því sambandi? Fjallað verður um núgildandi lagaákvæði sem varðað geta efnið og þann ramma sem þau og almennar meginreglur refsiréttar og sakamála­réttarfars setja handhöfum ákæruvalds varðandi réttarstöðu uppljóstrara. Að því marki sem tilefni er til verður vikið að fyrir­huguðum lagabreytingum sem hafa að markmiði að lögfesta sérstaka vernd uppljóstrara (frumvarp til laga um vernd upp­ljóstrara). Gerð verður grein fyrir áðurgildandi ákvæði í lögum um sérstakan saksóknara varðandi vernd uppljóstrara og fram­kvæmd á grundvelli þess.

Finnur Þór Vilhjálmsson

Frumvarp nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis

Á undanförnum árum hefur verið viss þróun hér á landi í átt til þess að tryggja vernd uppljóstrara betur en nú er gert í lögum. Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, en þar var ríkisstjórninni m.a. falið að leita leiða til þess að tryggja vernd heimildarmanna og afhjúpenda. Þann 16. mars 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skilaði af sér níu frumvörpum, þar á meðal frumvarpi að sérstökum lögum um vernd uppljóstrara. Við samningu frumvarpsins var litið til tilmæla og ráðlegginga al­þjóða­stofnana og þróunar í nágrannaríkjum Íslands. Frum­varpið hefur verið kynnt almenningi í opnu samráði og er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 150. löggjafarþing. Í erindinu verður fjallað um helstu ákvæði frumvarpsins og þau borin saman við gildandi rétt.

Oddur Þorri Viðarsson

Vernd uppljóstrara og atvinnulífið

Samtök atvinnulífsins telja vandaða viðskiptahætti vera grundvöll heilbrigðs atvinnulífs, að fyrirtækjum beri eins og öðrum að fylgja lögum og reglum, að brot í atvinnurekstri eigi ekki að líðast og að mikilvægt sé að upplýst sé um brot sem alvarleg áhrif geti haft á almannahagsmuni. Í erindinu verður greint frá afstöðu SA til fyrirliggjandi frumvarps um vernd upp­ljóstrara, þ. á m. hvernig frumvarpið er til þess fallið að ýta undir að starfsmenn fyrirtækja miðli upplýsingum um mikilvæga hags­muni þeirra án þess að brot í atvinnurekstri liggi fyrir. Það getur skaðað orðspor og viðskiptahagsmuni fyrirtækja með alvar­legum afleiðingum. Uppljóstrarinn yrði hins vegar ábyrgðarlaus af háttsemi sinni. Það er alvarlegt að víkja til hliðar ábyrgð manna af háttsemi sinni og einkum í þeim tilvikum þar sem ásakanir reynast ekki á rökum reistar. Í frumvarpinu er bæði gert ráð fyrir skaðabóta- og refsiábyrgð vinnuveitanda. SA telja að um sé að ræða viðsjárverða tillögu þar sem ómögulegt getur reynst að sanna að brot gegn starfsmannaréttindum megi rekja til uppljóstrunar. Frumvarpið gerir ráð fyrir meira íþyngjandi reglum en tilskipun Evrópusambandsins um sama efni. Það hefur slæm áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem mörg eru í alþjóðlegri samkeppni. Að mati SA er mikilvægt að ekki verði sett sérlög um vernd uppljóstrara nema í víðtækri sátt og að undangengnu vönduðu samráði líkt og tíðkast hefur í öðrum ríkjum.

Heiðrún Björk Gísladóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45