Vinnumarkaðsmál tengd ferðaþjónustu

Málstofustjóri: Íris Hrund Halldórsdóttir

Málstofa um vinnumarkaðsmál tengd ferðaþjónustu er vettvangur fyrir kynningar á hagnýtum og fræðilegum rannsóknum á sviði mannauðs og vinnumarkaðar sem tengjast ferðaþjónustu með beinum eða óbeinum hætti. Markmiðið með miðlun efnis á málstofunni er að efla þekkingu á fræðasviðinu og vitund um málaflokkinn meðal samstarfsfólks, nemenda og einstaklinga í atvinnulífinu.

Starfsánægja og hvatning

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið fordæmalaust síðustu ár, þegar horft er til komufarþega til landsins. Svona hröð þróun hefur óumflýjanlega ákveðnar áskoranir í för með sér. Ein sú stærsta sem snýr að stjórnendum er að tryggja ánægju og áhuga starfsfólks en það hefur sýnt sig að meiri starfsánægja og áhugi leiðir af sér minni starfsmannaveltu og aukin þjónustu­gæði. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hvaða aðferðir eru notaðar, sem ýta undir ánægju starfsmanna og hvatningu þeirra í starfi, meðal hótela á Íslandi. Einnig verður varpað ljósi á hvaða hlutverk mannauðsdeild hótelanna spilar í sköpun og innleiðingu slíkra aðferða. Hálfstöðluð viðtöl voru tekin við stjórnendur og starfsmenn í gestamóttöku fjögurra hótela á Íslandi sem öll tilheyra sömu keðjunni. Niðurstöður benda til þess að aðferðum sem snúa að starfsánægju og starfshvatningu og beitingu þeirra sé ábótavant og mikið verk sé óunnið þegar að þessum þáttum kemur. Verkferli, aðferðir eða tæki er varða þessi mál virðast ekki vera stöðluð og því undir hverjum stjórn­anda komið að innleiða verklag og aðferðir sem þykir henta hverju sinni. Þetta leiðir til þess að aðferðir eru ólíkar milli hótela. Viðmælendur voru á einu máli þegar kemur að þátttöku og sýnileika mannasuðdeildar, að hún væri fjarlæg, nánast ósýni­leg og væri ekki þátttakandi í daglegum rekstri og þeim áskorunum sem glímt væri við.

Paulina Neshybova og Magnús Haukur Ásgeirsson

 „Gott fyrsta starf“: Erlendir starfsmenn á íslenskum hótelum

Hreyfanleiki er mótandi afl sem hefur víðtæk áhrif, þar með talið á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan einkennist af hreyfanlegu starfs­fólki sem flytur milli landa til að starfa í greininni. Á Íslandi hefur erlendu starfsfólki í ferðaþjónustu fjölgað gríðar­lega undan­farin ár og því reiðir atvinnugreinin sig nú á fjöl­breyttan hóp starfsfólks. Í erindinu eru kynntar niðurstöður til­viksrann­sóknar um upplifun og reynslu erlends starfs­fólks á þremur hót­elum utan höfuðborgarsvæðisins. Mark­mið er að varpa ljósi á áskoranir og ávinning sem atvinna í ís­lenskri ferðaþjónustu skap­ar fyrir erlent starfsfólk. Einnig er sjónum beint að áskor­unum og ávinningi sem atvinnurekendur standa frammi fyrir í fjölmenningarlegu starfsumhverfi. Niður­stöður benda til þess að helsti ávinningur starfsfólks felist í sam­skiptum og lærdómi. Sam­skipti eiga sér stað við sam­starfs­fólk og hótelgesti frá mörg­um löndum, sem veitir tækifæri til að bæta enskukunnáttu, læra um margvíslega menningar­heima og mynda þverþjóðleg tengsl. Þar með er möguleiki á þver­þjóð­legum hreyfanleika. Hins vegar eru hótel ensku­mælandi um­hverfi og þar með er ekki öllu starfs­fólki veitt tækifæri til að bæta íslenskukunnáttu sína, sem gerir þeim erfiðara fyrir að taka þátt í íslensku samfélagi. Auk þess eru atvinnutækifæri og hreyfan­leiki starfsfólks, sem ekki talar ís­lensku, takmörkuð. Niður­stöður benda til þess að at­vinnu­­rek­endur og greinin eigi að skapa lærdómsmenningu og gefa starfs­fólki tækifæri til að öðlast þekkingu um land og tungu­mál.

Margrét Wendt, Gunnar Þór Jóhannesson og Unnur Dís Skapta­dóttir

Frá Madrid til Mánárbakka: Uppbygging ferðaþjónustu í dreifðum byggðum – áskoranir varðandi vinnuafl

Náttúran er helsta aðdráttarafl ferðamanna sem sækja Ísland heim. Uppbygging ferðaþjónustunnar hefur því ekki einskorðast við þéttbýlið þar sem innviðir og þjónusta eru til staðar heldur hefur uppbygging hennar verið um land allt. Rannsóknir á vinnuafli í ferðaþjónustu hafa leitt í ljós að það getur verið áskorun fyrir atvinnurekendur á dreifbýlum svæðum þar sem vinnumarkaðurinn er smár og lítið er um innviði og þjónustu, að laða að og halda í starfsfólk. Oftar en ekki þurfa ferðaþjónustu­fyrirtæki að reiða sig á erlent starfsfólk til þess að manna stöður í störfum tengdri ferðaþjónustu. Má sjá það á tölum Hag­stofunnar að hlutfall erlends vinnuafls í ferðaþjónustu hefur verið að aukast um land allt og er þessi hópur oft í viðkvæmri stöðu. Í þessu erindi verður fjallað um áskoranir sem geta komið upp hjá erlendu starfsfólki sem ræður sig í vinnu fjarri heima­högum og fyrir vinnuveitendur í dreifðum byggðum landsins. Erindið er byggt á gögnum úr rannsókninni „Kjör og aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu“. Tekin voru 22 viðtöl við starfs­menn stéttarfélaga og erlent starfsfólk í ferðaþjónustu á völdum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt óform­legum viðtölum við starfsfólk í ferðaþjónustu og atvinnu­rekendur á þessum svæðum. Frumniðurstöður staðfesta að inn­viðir og þjónusta í dreifðum byggðum geta skipt máli um hvort að starfs­fólk vilji vera áfram á svæðinu. Niðurstöðurnar benda jafn­framt til þess að ýmsir félagslegir og menningarlegir þættir hafi þar einnig áhrif.

Íris Hrund Halldórsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45