Virði óáþreifanlegra gæða

Málstofustjóri: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Málstofan snýst um mat á virði óáþreifanlegra gæða sem eiga sér ekki markaðsverð. Hættan við stefnumótun sem grundvölluð er á upplýsingum er sú tilhneiging að meta til fjár það sem er auðmælanlegt, en ná ekki tökum á virði þess sem mestu máli skiptir. Við val á milli íhlutana sem margar hverjar eru mjög kostnaðarsamar er oft stuðst við hagkvæmnisgreiningar þar sem borinn er saman kostnaður og ávinningur. Í ljósi takmarkaðs fjármagns eru flestir sammála um að slíkir útreikningar séu mikilvægir, en þessir útreikningar verða mjög bjagaðir sé virði óáþreifanlegra gæða ekki tekið með í reikninginn, enda eru þau gæði oft meðal þess sem fólk metur hvað mest í eigin lífi. Allir fyrirlesarar mástofunnar eru hluti af fjölþjóðlega rannsóknarteyminu ConCIV sem stundar rannsóknir á virði óáþreifanlegra gæða (sjá https://english.hi.is/faculty_of_economics/conciv). Hópnum er stýrt frá Háskóla Íslands af málstofustjóra og í erindunum verður fjallað um nýjustu rannsóknir hópsins. Sérstök áhersla verður á geðheilbrigðismál, áfengisneyslu, vinnuaðstæður og hlutfallslega efnahagslega stöðu.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Tengsl efnahagslegrar stöðu og hamingju

Í þessari rannsókn er Evrópska lífsgæðakönnunin (e. European Quality of Life Survey) notuð til að skoða tengslin á milli tekna, efnahagslegrar stöðu og hamingju fólks í 34 Evrópulöndum. Meginmarkmiðið er að nota upplýsingar um upplifaða efnahagslega stöðu, þ.e. hvar fólk upplifir sig statt fjárhagslega miðað við aðra, og kanna hver áhrifin af henni eru á hamingju fólks samanborið við áhrifin af tekjum, bæði hlutfallslegum og rauntekjum. Þrjár meginniðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi: (1) Sterk tengsl eru á milli hamingju og upplifaðrar efnahagslegrar stöðu. Þeir sem telja sig verr setta en aðra eru umtalsvert óhamingjusamari á meðan þeir sem telja sig betur setta eru örlítið hamingjusamari, miðað við þá sem telja sig hvorki betur né verr setta. (2) Hlutfallslegar tekjur segja meira til um hamingju fólks en rauntekjur, sem er í samræmi við fyrri rannsóknir. (3) Þegar áhrif hlutfallslegra tekna og upplifaðrar efnahagslegrar stöðu á hamingju eru skoðuð í sama líkani, þá sést að upplifuð efnahagsleg staða hefur sterkari tengsl við hamingju en raunverulegar tekjur. Þetta er vísbending um að upplifun fólks á efnahagslegri stöðu sinni í heimalandi sínu segi meira til um hamingju þess en tekjur þeirra.

Guðrún Svavarsdóttir

Lykilorð: efnahagsleg staða, hamingja, tekjur

Áhrif geðraskana á lífsánægju

Fjöldi rannsókna hafa verið framkvæmdar á sviði sálfræði, hamingjurannsókna og hagfræði til að kanna áhrif geðraskana á lífsánægju. Samt sem áður hefur fræðasamfélaginu ekki tekist að leggja til fullnægjandi aðferð til að bregðast við því tvístefnusambandi sem ríkir milli lífsánægju og geð­heilbrigðis­breyta. Ef ekki er brugðist við þessu vandamáli leiðir það til verulega bjagaðs mats á áhrifum geðraskana á lífsánægju. Í þessari rannsókn metum við áhrif þunglyndis og/eða kvíða á lífsánægju með hjálparbreytuaðferð (e. instrumental variable approach), þar sem gagnasafnið HILDA (Household, Income and Labour Dynamics in Australia) er notað. Niðurstöður okkar leiða í ljós að fyrri rannsóknir hafi verulega ofmetið áhrif þunglyndis og/eða kvíða á lífsánægju. Fyrri niðurstöður sýna sjö til átta sinnum stærri áhrif en okkar. Ef þessar niðurstöður  eru notaðar til að reikna virði þess að þurfa ekki að búa við þunglyndi og/eða kvíða þá fæst um það bil $17,000 á ári, samanborið við $560,000 – $14,000,000 í fyrri rannsóknum. Það er því afar mikilvægt að taka tillit til þess tvístefnusambands sem ríkir milli lífsánægju og geðheilbrigðisbreyta, ef niðurstöður eiga að geta gagnast stjórnvöldum við að taka upplýstar ákvarðanir á sviði geðheilbrigðismála.

Arnar Már Búason, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Edward Norton og Paul McNamee

Lykilorð: þunglyndi, lífsánægja, greiðsluvilji

Hvers virði er það að líða vel í vinnunni?

Vanlíðan í starfi, svo sem streita og kulnun, hefur verið mikið í umræðunni á síðustu misserum enda hefur algengi þessara kvilla færst í aukana undanfarna áratugi. Rannsóknir á samfélagslegum kostnaði vinnustreitu og annarra óæskilegra aðstæðna í vinnu taka sjaldnast tillit til þess velferðartaps sem einstaklingurinn sjálfur hlýtur af slíkri vanlíðan. Markmið þessarar rannsóknar er að meta það velferðartap sem einstaklingur verður fyrir vegna óæskilegra vinnuaðstæðna. Þar með er hægt að sjá hvaða þættir starfsumhverfis hafa verstu áhrifin á hamingju einstaklinga. Velferðartapið er reiknað með tekjuuppbótaraðferð, sem byggir á því að meta tölfræðilegt samband hamingju, tekna og óæskilegra aðstæðna í vinnu. Notuð eru gögn frá Embætti Landlæknis um heilsu og líðan Íslendinga frá árunum 2007, 2009, 2012 og 2017, þar sem spurt er út í 15 þætti tengda vinnuaðstæðum. Niðurstöðurnar benda til þess að velferðartap einstaklinga sem upplifa slæmar aðstæður í vinnu hlaupi á hundruðum þúsunda á ári á mann. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að slæm samskipti við yfirmenn sýni sterkasta sambandið milli hamingju af þeim aðstæðum sem eru skoðaðar í rannsókninni.

Ásthildur Margrét Jóhannsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Arnar Már Búason

Lykilorð: hamingja, vinnuaðstæður, tekjuuppbót

Áfengi og lífsánægja

Samband áfengis og lífsánægju er flókið. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa skýrara ljósi á þetta samband. Þá er ljósi varpað á mismunandi aðferðafræðilegar nálganir við mat sambands þessara tveggja breyta. Notast er við ástralska gagnasafnið HILDA (Household, Income and Labour Dynamics in Australia). Hjálparbreytuaðferð (e. instrumental variables approach) og sérstakar aðferðir sem nýta panel-gögn eru notaðar til að bregðast við líklegu tvístefnusambandi (e. endogeneity) áfengis og lífsánægju. Þá er tekjuupp­bótar­aðferðin notuð, en hún nýtir samband nytja, tekna og áfengisneyslu til að meta peningalegt virði þeirrar velferðarbreytingar sem einstaklingurinn verður fyrir vegna neyslu áfengis. Vissulega er aukinn skilningur á sambandi áfengis og lífsánægju mikilvægur við opinbera ákvörðunartöku á úthlutun fjár innan heilbrigðiskerfisins og víðar. Við leggjum þó áherslu á að auk þessa hagnýta gildis hafi rannsóknin aðferðafræðilegt gildi. Helstu niðurstöður benda til þess að peningalegt virði sé mjög næmt fyrir smávægilegum breytingum á matslíkönum. Þessar niðurstöður eru mikilvægt framlag til rannsókna á virði óáþreifanlegra gæða og benda til þess að í slíkum rannsóknum sé mikilvægt að huga vel að innri breytu vanda.

Anna Guðrún Ragnarsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Paul McNamee and Edward Norton

Lykilorð: áfengi, lífsánægja, tekjuuppbót

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 687 1292 5002
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Annað / Other
Prófessor / Professor
Annað / Other
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 687 1292 5002