Þjóðarspegillinn-banner-rannsóknir

Rannsóknir í félagsvísindum

Jafnlaunavottun og launamunur kynja

Um rannsóknina

Innleiðing jafnlaunastaðals ÍST85:2012 var lögfest árið 2017. Fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa að jafnaði 25 einstaklingar eða fleiri á ársgrundvelli var gert að innleiða jafnlaunakerfi og öðlast jafnlaunavottun. Lögunum var ætlað að koma í veg fyrir ómálefnalega kynbundna launasetningu og draga úr launamun kynjanna.

Þessi rannsókn er hluti af langtímarannsókn þar sem jafnlaunastaðall er skoðaður sem verkfæri til að minnka launamun kynjanna og kannað hvort innleiðing hans sé líkleg til að ná því markmiði. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvort jafnlaunastaðallinn hafi skilað árangri.  Í fyrri hluta rannsóknarinnar byggja rannsóknargögn annars vegar á gagnaöflun úr launarannsókn Hagstofu Íslands þar sem rýnt er í þróun launamunar kynja fyrir tímabilið 2012-2020 og gerður samanburður á m.a. vottuðum og óvottuðum fyrirtækjum og stofnunum og hins vegar á eigindlegum viðtölum við starfandi vottunaraðila jafnlaunastaðals. Í síðari hluta rannsóknarinnar er rýnt áfram í launarannsókn Hagstofu Íslands auk þess að greina tuttugu viðtöl við stjórnendur sem starfa hjá fjölbreyttum fyrirtækjum og stofnunum hvað varðar starfsemi og stærð. Tilgangur viðtalanna er að greina framkvæmd og gagnsemi vottunarinnar sem og styrkleika og veikleika staðalsins.

Gildi rannsóknarinnar fyrir samfélagið felst í því að auka skilning á launamun kynja, bæði almennt og í skipulagsheildum sem hafa fengið vottun og hvernig hægt er að nota staðalinn sem tæki til að minnka launamun. Einnig er vonast til að rannsóknin nýtist til að skilgreina mælikvarða sem aukið geta gæði slíks samanburðar.

Rannsóknarteymið

Ragna Kemp Haraldsdóttir, lektor í upplýsingafræði, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

Fjármögnun og samstarfsaðilar

Rannsóknin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði árið 2020. 

Samstarfsaðilar eru Hagstofa Íslands, Jafnréttisstofa og Forsætisráðuneyti.

Thjodarspegill_stubbur 2 2021