Þjóðarspegillinn í yfir 20 ár

Þjóðarspegillinn í yfir 20 ár

Um ráðstefnuna

Í september 1994 var í fyrsta sinn haldin ráðstefnan Ráðstefna í félagsvísindum við Háskóla Íslands. Var hún haldin í Odda og hefur frá árinu 2003 verið árlegur viðburður. Að fyrstu ráðstefnunni stóðu félagsvísindadeild og viðskipta– og hagfræðideild en fljótlega bættist lagadeild við.

Árið 2006 fékk ráðstefnan nafnið Þjóðarspegillinn. Umsjón og skipulagning ráðstefnunnar hefur frá upphafi verið í höndum starfsfólks Félagsvísindastofnunar en margir aðilar innan félagsvísindasviðs hafa í gegnum tíðina lagt hönd á plóg og komið að undirbúningi ráðstefnunnar.

Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar var einn aðalhvatamaður Þjóðarspegilsins. Hann starfaði við Háskóla Íslands í nær þrjá áratugi, var atorkumikill fræðamaður og kennari og átti mikinn þátt í uppbyggingu sálfræðigreinarinnar. Hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar í áratug.

Friðrik hafði mikinn hug á rannsóknum og hagnýtingu fræðanna í þágu almennings. Með ráðstefnunni vildi hann efla stöðu félagsvísinda í landinu og skapa almenningi aðgang að rannsóknarstarfi innan háskólans. Áhersla hans á miðlun þekkingar var mikill drifkraftur í að koma ráðstefnunni á fót eins og sést glöggt í formála fyrsta ráðstefnuritsins þar sem Friðrik ritaði eftirfarandi:

„Meginmarkmið ráðstefnunnar var að kynna rannsóknastarf sem unnið er í félagsvísindum á Íslandi. Stundum er kvartað yfir því að erfitt sé fyrir fólk utan Háskólans að fá vitneskju um rannsóknir sem þar eru stundaðar, frá þeim sé aðeins greint í sérhæfðum fræðitímaritum og sú vitneskja sem þar er að finna nái aldrei út fyrir þröngan hóp fræðimanna. Öðrum þræði má líta á ráðstefnuna sem viðbragð við slíkum umkvörtunum. Þar gafst tækifæri til að koma og hlusta á fræðimenn segja frá eigin rannsóknum“.

Frá upphafi var því lögð áhersla á að ráðstefna í félagsvísindum væri vettvangur þar sem fræðafólk gæti kynnt vinnu sína og rannsóknir og efnt til samræðna við almenning. Þannig hafa fyrirlesarar í gegnum tíðina verið hvattir til að haga erindum sínum og efni þannig að fólk utan fræðasviðsins, nemendur og almenningur, geti haft gagn og gaman af. Þá hefur verið lagt kapp á að kynna ráðstefnuna í fjölmiðlum í því skyni að gera efni hennar aðgengilegt áhugasömum.

Fyrirkomulag ráðstefnunnar hefur þróast í áranna rás. Fyrst um sinn var hafður sá háttur á að dagskrárliðir ráðstefnunnar voru skipulagðir af fræðigreinum og stofnunum. Árið 2011 var horfið frá því fyrirkomulagi og dagskráin skipulögð út frá málstofum. Mikil ánægja ríkti með breytinguna enda gafst þá tækifæri til aukinnar samvinnu milli fræðafólks ólíkra deilda og þverfræðilegri samræðna á málstofunum. Allt fram til ársins 2016 gafst þátttakendum færi á að gefa greinar sínar út í ráðstefnuriti, fyrst á prenti en síðar á rafrænu formi í opnum aðgangi á Skemmunni.

Þar sem vinna við ritrýni og útgáfu var umtalsverð var ákveðið að hverfa frá útgáfu ráðstefnurits. Á Skemmunni má þó enn finna ráðstefnurit Þjóðarspegilsins og greinar sem byggja á erindum sem flutt hafa verið á ráðstefnunni í gegnum tíðina. Þar má finna ríkulegt samansafn af greinum sem spanna mörg fræðasvið og ber merki gróskumikils starfs í rannsóknum á sviðinu. Frá árinu 2012 hafa verið gefnar út ágripabækur sem nálgast má á Skemmunni.

Á síðastliðnum tuttugu árum hefur ráðstefnan vaxið mikið að umfangi. Þjóðarspegillinn er nú þverfræðileg ráðstefna á sviði félagsvísinda þar sem taka þátt sérfræðingar og fræðafólk af ýmsum fræðasviðum svo sem bókasafns- og upplýsingafræði, aðferðafræði, afbrotafræði, fötlunarfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, mannfræði, námsráðgjöf, kynjafræði, viðskiptafræði, lögfræði, stjórnmálafræði og þjóðfræði. Árlega tekur jafnframt þátt erlent fræðafólk, sérfræðingar hinna ýmsu stofnana, sjálfstæðir rannsakendur og fræðafólk frá öllum háskólum landsins.

Verkefnastjórar

Árni Bragi Hjaltason

Árni Bragi Hjaltason

Ólöf Júlíusdóttir

Að skipulagningu ráðstefnunnar standa í stafrófsröð:

  • Árni Bragi Hjaltason
  • Guðbjörg Andrea Jónsdóttir
  • Guðlaug Júlía Sturludóttir
  • Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir
  • Hulda Proppé
  • Ólöf Júlíusdóttir
  • Þórarinn Hjálmarsson

Uppsetning á þessum vef:

  • Halla Sólveig Þorgeirsdóttir
  • Árni Bragi Hjaltason

Svipmyndir af fyrri ráðstefnum

Thjodarspegill_stubbur 2 2021