(Ó)jöfn staða stjórnenda og doktorsmenntaðra á Íslandi, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Möltu

Málstofustjóri: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Málstofan inniheldur fimm erindi. Hún fjallar um stöðu æðstu stjórnenda og doktorsmenntaðra kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði m.a. í samanburði við stöðuna í Kanada, Noregi, Svíþjóð og Möltu. Varpað er ljósi á samspil fjölskyldu og atvinnulífs og þróun launa. Leitað er svara við spurningunni um hvort kynbundnum launamun hafi verið útrýmt meðal þessa hóps og jafnrétti kynjanna verið náð.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Tengsl fjölskyldustöðu og fæðingarorlofstöku við launaþróun doktorsmenntaðra á Íslandi

Ísland hefur komið vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir gott gengi og metnaðarfull markmið stjórnvalda til þess að ná fullu kynjajafnrétti, ríkir enn kynbundinn launamunur á almennum vinnumarkaði. Því hefur verið haldið fram að aukin menntun kvenna sé lykilatriði í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og afnema kynbundinn launamun. Menntunarstig kvenna hefur aukist mikið hér landi og hlutfall kvenna sem lýkur doktorsprófi hefur einnig verið í stöðugum vexti. Þrátt fyrir það hafa fáar rannsóknir verið gerðar á tengslum doktorsprófs við launaþróun kynjanna, einkum með tilliti til fjölskyldustöðu. Í ljósi þessa er markmið rannsóknarinnar að skoða launaþróun doktorsmenntaðra einstaklinga með tilliti til kyns og fjölskyldustöðu, einkum barneigna og fæðingarorlofstöku. Til greiningar voru nýtt langtímagögn frá Hagstofu Íslands frá árunum 1997 til 2017 og er þýðisramminn einstaklingar með 5 – 20 ára gamalt doktorspróf (N = 814). Hýrarkísktri aðhvarfsgreiningu var beitt á gögnin. Niðurstöður sýna fram á viðvarandi kynbundinn launamun meðal doktorsmenntaðra bæði 5 og 10 árum eftir útskrift. Þess utan kom í ljós að börn á heimili hafa jákvæð áhrif á tekjur karla meðan því er öfugt farið hjá konum. Hjá þeim verða áhrifin neikvæð 10 árum eftir útskrift.

Maya Staub og Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Er kynbundinn launamunur meðal norrænna doktora? Samanburður þriggja landa

Norðurlöndin koma vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna. Norræn fjölskyldupólitík þykir framsækin og miðar að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þótt oft sé talað um norrænt velferðarkerfi þá eru velferðarkerfi Norðurlandanna að nokkru leyti ólík. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að bera saman laun doktorsmenntaðra kvenna og karla á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Byggt er á langtímagögnum frá Hagstofum Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Horft er til tekna 25 – 60 ára einstaklinga árið 2014, sem höfðu lokið doktorsprófi á árunum 1997 til 2013. Spurt er hvort kynbundinn launamunur sé til staðar hjá þessum hópi í löndunum þremur, hvort fjöldi barna hafi áhrif á launin og hvort máli skipti hvort fólk vinni innan eða utan akademíunnar. Niðurstöðurnar sýna að talsverður kynbundinn launamunur er til staðar hjá þessum hópi í löndunum þremur, einkum þegar ekki hefur verið leiðrétt fyrir bakgrunnsþáttunum aldri, fjölda barna á heimilinu, lengdar foreldraorlofs, hjúskaparstöðu, útskriftarári og útskriftargrein. Ekki er um marktækan launamun að ræða hjá doktorsmenntuðum á Íslandi sem vinna innan akademíunnar, þegar búið er að leiðrétta fyrir áðurnefndum þáttum. Það sama gildir um doktorsmenntaða í Noregi sem vinna utan akademíunnar. Í fleiri tilfellum en færri hefur doktormenntun jákvæðari áhrif á launaþróun karla en kvenna.

Guðbjörg Linda RafnsdóttirKolbeinn Stefánsson, Karin Halldén og Kjersti Misje Østbakken

Kynjaður veruleiki daglegs lífs. Samanburður á samræmingu fjölskyldu og vinnu á meðal akademísks starfsfólks á Íslandi og í Kanada

Á undanförnum misserum hefur fólki sem lýkur doktorsprófi fjölgað hratt. Enn er það þannig að fleiri karlar en konur hafa lokið doktorsprófi þó saxast jafnt og þétt á kynjabilið. Að meðaltali eru konur eldri þegar þær ljúka doktorsprófi og þá er framgangur þeirra innan háskólanna almennt hægari og þær eru líklegri til þess að vera lausráðnar eða í tímabundnum stöðum og fleiri karlar eru prófessorar en konur. Þetta virðist vera nokkuð almenn tilhneiging þrátt fyrir ólíka menningu og velferðakerfi á milli landa og misjafna stöðu karla og kvenna, en helst þó í hendur við þann kynjaða veruleika sem byggir á meira vinnuframlagi kvenna þegar kemur að ólaunaðri störfum innan heimila og umönnun barna. Rannsóknin byggir á samanburði á stöðu karla og kvenna sem starfa við háskóla í Reykjavík og í Victoria í Kanada. Markmið rannsóknarinnar er að draga fram hvernig karlar og konur lýsa og upplifa kynjaðan veruleika sinn í tengslum við samræmingu fjölskyldu og akademískra starfa. Tekin voru viðtöl við 26 akademískt starfsfólk í þessum borgum og benda niðurstöðurnar til þess að þrátt fyrir ólíka stöðu kynjanna á Íslandi og í Kanada, mismunandi stofnanastrúktúr og ólík velferðakerfi þá upplifi þátttakendur samræmingu fjölskyldulífs og vinnu ekki með svo ólíkum hætti.

Andrea Hjálmsdóttir

Kvenkyn til trafala? Stjórnendur á Íslandi og í Möltu

Á Vesturlöndum fer konum fjölgandi í áhrifastöðum í viðskiptalífinu. Þó er fjölskylduábyrgð enn talin hindrun meðal kvenna sem gerir það að verkum að þær eru síður álitnar álítlegir kandídatar í stjórnendastörf. Í erindinu verður skoðað á hvern hátt ólík fjölskyldustefna endurspeglar hvernig stjórnendur ræða möguleika kvenna til frama í viðskiptalífnu á Íslandi og í Möltu. Tekin voru viðtöl við 40 kven- og karlstjórnendur í löndunum tveimur á árunum 2014 og 2015 og þau greind út frá femínísku sjónarhorni. Frumniðurstöður gefa til kynna að pólítískar stefnur stjórnvalda og samfélagsleg gildi hafa áhrif á hvernig stjórnendur í löndunum tveimur líta á fjölskylduábyrgð sem hindrun. Á Íslandi hefur mæðrum og feðrum verið tryggður jafn réttur til fæðingarorlofs á meðan að réttur feðra til fæðingarorlofs á Möltu er mun minni en réttur mæðra. Íslenskir stjórnendur litu síður á fjölskylduábyrgð sem hindrun í samanburði við stjórnendur í Möltu. Þar samþykktu stjórnenedur frekar eðlishyggjurök um að mæður væru best til þess fallnar að taka ábyrgð á fjölskyldu. Sú ályktun er dregin að fjölskyldustefna hefur áhrif á viðhorf stjórnenda til jafnréttis á vinnumarkaði og innan heimilisins sem á bæði þátt í að breyta og viðhalda kynjuðum hugmyndum um hlutverk kvenna og karla í samfélaginu.

Ólöf Júlíusdóttir og Anna Borg

Áskorun akademískra stjórnenda í danska háskólakerfinu – að finna jafnvægi á milli frelsis fræðimanna til rannsókna og rekstrarafkomu

Rannsóknir á styrkjum til rannsókna hafa sýnt að aukið fjármagn hefur ekki aðeins haft jákvæð áhrif rannsóknarstarf heldur einnig skapa áskoranir fyrir akademíska stjórnendur (rektor, sviðs- og deildarforseta). Rannsóknarsjóðir gera oftar en ekki kröfu um mótframlag og rannsóknarverkefnum fylgir rekstrarkostnaður, sem bindur hluta opinberrar fjármögnunar þeirra stofnana sem hýsa verkefnin.  Rannsóknir hafa sýnt að þó að akademískir stjórnendur hafi í orði umboð til þess að hafna því að veita verkefnum nauðsynleg mótframlög  þá eigi þeir erfitt um vik að fylgja því umboði eftir vegna stöðu  og áhrifa sterkra rannsakenda. Viðtalsrannsókn meðal akademískra stjórnenda allra háskóla í Danmörku sýnir að þeir finna verulega fyrir því að utanaðkomandi fjármögnun þrengir að fjárhag, ekki síst hjá þeim skólum sem mestum árangri hafa náð í styrkjasókn. Þetta á sérstaklega við í þeim skólum þar sem sterkir rannsakendur taka til sín verulegan hluta fjármagns. Áherslur rannsóknarsjóða auka svo enn á vandann og erfitt getur reynst að halda úti rannsóknarnámi það sem ekki er hægt að fjármagna rannsóknir í öllum fögum. Þó fjármögnun rannsókna í Danmörku og Íslandi séu ekki að öllu leiti sambærilegar er gagnlegt að horfa til þess hvaða langtíma áhrif geta orðið af áherslu á utanaðkomandi fjármögnun rannsókna.

Maria Theresa Norn og Margrét Sigrún Sigurðardóttir

Lykilorð: stjórnun háskóla, rannsóknarstyrkir, frelsi til rannsókna

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Dósent
Háskólinn á Möltu / University of Malta
Fræðimaður
Annað / Other
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Ph.D. / Phd
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45