Vinna, líðan og jafnrétti

Málstofustjóri: Margrét Einarsdóttir

Málstofurnar vinna, líðan og jafnrétti I og II fjalla um aðstæður í vinnu í víðu samhengi. Erindin á málstofunum fjalla um hvaða áhrif vinnan getur haft á andlega og líkamlega líðan barnungra jafnt sem fullorðinna starfsmanna, hvaða áhrif efnahagskreppur geta haft á líðanina, hvernig vinnan tengist jafnrétti kynjanna og hvaða hlutverki stjórnendur gegna í að tryggja heilsu og öryggi undirmanna sinna.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fyrri hluti málstofu

kl. 09:00 til 10:45

COVID-19 og efnahagskreppan. Hvaða lærdóm getum við dregið af bankahruninu?

Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl efnahags­kreppunnar 2008 við veikindi og veikinda­fjarvistir starfsfólks í menntunar- og umönnunarstörfum 17 íslenskra sveitarfélaga á árunum milli 2010 og 2019. Spurt var hvort fólk hafi mætt veikt til vinnu af völdum álags og hvort starfsfólk hafi leitað til læknis vegna aðstæðna í vinnunni á tímabilinu. Bakgrunnsþættir eins og uppsagnir, kyn, aldur, hjúskaparstaða, barnafjöldi og tegund atvinnu voru einnig skoðaðir. Byggt er á langtíma panel­gögnum 1254 starfsmanna sem svöruðu öllum fyrir­lögnum árin 2010, 2011, 2013, 2015 og 2019. GEE módel var notað til að spá fyrir þróun yfir tíma.

Niðurstöðurnar sýna aukningu veikindafjarvista á tímabilinu. Marktæk tengsl voru við uppsagnir, aldur, hjúskapar­stöðu, börn á heimili og vinnu í leikskóla. Fleiri mættu einnig veikir til vinnu vegna álags og það sama gilti um að hafa leitað til læknis vegna aðstæðna í vinnunni.  Rannsóknin sýnir mikilvægi þess að skoða heilsu og líðan í kjölfar efnahags­hruns, ekki aðeins fyrstu árin eftir hrun heldur mörg ár þar á eftir. Rannsóknin er innlegg í umræðu um vinnu­tengda líðan í kjölfar efnahagskreppa, sem brýnt er að skoða vegna COVID-19.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir

Lykilorð: efnahagskreppur, vinnutengd líðan, COVID-19

Hvað geta stjórnendur gert til að stuðla að heilsusamlegra starfsumhverfi?

Markmið rannsóknarinnar var að skoða streitu og kulnun í starfi meðal starfsfólks og greina áhrif stjórnunarhátta og vinnu­aðstæðna á vellíðan starfsfólksins. Rannsóknin byggir á spurninga­lista­könnun meðal starfsfólks 13 íslenskra sveitar­félaga frá árinu 2019. Alls svöruðu 5.182 spurninga­listanum að einhverju eða öllu leyti (svarhlutfall 54%). Notaður var PPS (Perceived stress scale) mælikvarðinn til að mæla starfstengda streitu og CBI (Copenhagen Burnout Inventory) til að mæla kulnun í starfi. Niðurstöðurnar sýna að meira en helmingur svarenda var haldinn vinnutengdri streitu, tæp 59%. Niður­stöðurnar sýndu einnig að tæp 19% svarenda voru með kulnunar­einkenni sem viðkomandi ætti að gera eitthvað í og tæp 3% mældist svo örmagna og útbrunnin að þau ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni. Fram komu neikvæð tengsl streitu og kulnunar við stjórnunar­hætti (hvat­ningu á vinnustað, félagslegan stuðning, umhyggju fyrir starfs­fólki og upplýsingamiðlun) sem og vinnuaðstæður (staðblæ, sjálfræði í starfi, þróun í starfi og samskipti). Niður­stöðurnar sýna glöggt að það er ýmislegt sem stjórnendur geta gert til að hafa áhrif á og draga úr streitu og kulnun á vinnustað. Öll berum við ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan en það er á ábyrgð vinnu­veitandans að skapa gott vinnuumhverfi þannig að starfs­fólk geti unnið sín störf á góðan hátt og að það geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess.

Hjördís Sigursteinsdóttir og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir 

Andleg líðan íslenskra ungmenna og vinna með skóla: Munur eftir kyni?

Andleg vanlíðan er algeng meðal unglinga og þá sérstaklega meðal stúlkna. Það er líka algengt að íslensk ungmenni vinni með skóla, þá sérstaklega stúlkur. Þáttur vinnu með skóla í vanlíðaninni og tengsl við kyn hafa hins vegar lítið verið rannsökuð. Markmið rannsóknarinnar er að skoða mun milli andlegrar líðanar og umfangs vinnu með skóla meðal íslenska ungmenna eftir kyni. Spurningakönnun var lögð fyrir 2800 13-19 ára ungmenni, slembivalin úr Þjóðskrá. Svarhlutfall var 48,6%. Spurt var hversu oft ungmennin hefðu fundið fyrir andlegum einkennum síðasta árið og ungmennunum skipt niður í þrjá hópa, þeirra sem ekki vinna með skóla, eru hóflegri vinnu og í mikill vinnu. Marktækni var mæld með Kí-kvaðrat-prófi. Niðurstöðurnar sýna að ungmenni sem vinna ekki með skóla eru ólíklegust en þau sem vinna mikið líklegust til að búa við slæma almenna andlega heilsu og að finna fyrir þreytu eftir fullan svefn, svefnleysi, þunglyndi og áhyggjum eða depurð. Munurinn helst hjá stelpum en hverfur alfarið hjá strákum þegar prófað er eftir kyni. Enginn munur mældist milli umfangs vinnu með skóla og að finna fyrir kvíða eða spennu. Ályktað er að bæta þurfi aðstæður ungmenna í vinnu þannig að þær ýti ekki undir andlega vanlíðan, þá einkum aðstæður stúlkna.

Margrét Einarsdóttir

Lykilorð: andleg líðan, vinna með skóla, kynjamunur

Áhrif félagslegs stuðnings á starfsánægju á vinnustað

Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif staðblæs á líðan starfsfólks á vinnustað út frá félagslegum stuðningi frá næsta yfirmanni og samstarfsfélögum sem og samhygð á vinnustað. Rannsóknin byggir á spurningarlistakönnun meðal starfsfólks 13 íslenskra sveitarfélaga sem framkvæmd var árið 2019. Svarhlutfall könnunarinnar var ríflega 54% í heild, en alls svöruðu 5.182 einstaklingar könnuninni. Spurningarnar í könnuninni eru allt spurningar sem hafa verið áður notaðar í öðrum vinnustaðarannsóknum þar sem verið er að mæla líðan á vinnustaðnum og starfsánægju. Til að kanna mun á viðhorfum karla og kvenna á félagslegum stuðningi, samhyggð og starfsánægju var notað kí-kvaðratpróf. Niðurstöður sýna að starfsfólk sem upplifir félagslegan stuðning og samhyggð á vinnustaðnum er ánægðara í starfi. Konur töldu í meira mæli en karlar að þær ættu stuðning vísan bæði frá vinnufélögum og yfirmönnum og fleiri konur en karlar töldu að yfirmaður eða vinnufélagi sýndi þeim umhyggju sem einstaklingi. Fram kom jafnframt marktækur munur á starfsánægju kvenna og karla þannig að hlutfallslega fleiri konur eru ánægðari í starfi en karlar. Sterk jákvæð tengslu fundust á milli staðblæs og starfsánægju sem þýðir að líðan starfsfólks á vinnustað var betri þar sem staðblærinn var sterkari en ver þar sem hann var veikari. Niðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að stjórnendur stuðli að góðum staðblæ á vinnustaðnum sem skapar vinnuumhverfi þar sem starfsfólk nýtur félagslegs stuðnings og samhyggðar frá yfirmönnum og vinnufélögum.

Fjóla Björk Karlsdóttir

Seinni hluti málstofu

kl. 11:00 til 12:45

Ástarkraftur og atvinnan. Er eitthvað kynlegt við það?

Um heim allan eru karlar í meirihluta þegar kemur að áhrifa­stöðum á vinnumarkaði og það sama  gildir um Ísland. Þrátt fyrir að mörg mikilvæg skref hafi verið tekin í átt að auknu jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi þá má að hluta skýra valdamuninn á vinnumarkaði með hugmyndafræðilegri vísan í rómantísk ástarsambönd sem á sér rótgrónar rætur í valda­tengslum ástarinnar. Í erindinu beitum við sjónarhorni ásta­rkraftsins sem ein skýring á ójöfnuði karla og kvenna í stjórn­enda­stöðum. Greiningin byggir á 61 viðtali, tekin á árunum 2009 – 2016. Niðurstöðurnar gefa til kynna að ástarkrafturinn eigi þátt í að fleyta körlum áfram í atvinnulífinu og geti frelsað þá frá fjöl­skylduábyrgð á meðan sami kraftur festi konur í ástar- og umönnunarfjötrum. Fyrirtækjamenning gerir oft ráð fyrir löngum vinnudegi sem karlar eiga frekar færi á að sinna vegna virðisaukans sem ástin færir þeim. Karlar í framkvæmdar­stjórnarstöðum eiga að meðaltali fleiri börn en konur í sömu stöðu, en þó verja þeir mun minni tíma í að sinna fjölskyldu og öðru heimilishaldi en kvenkyns stjórnendur. Þar sem náin sambönd kynjanna hafa í för með sér að karlar í áhrifastöðum fá meiri stuðning til að sinna sjálfum sér og starfsframanum en gildir um  konur í sömu stöðu, þá hefur sú ályktun verið dregin að ástin valdefli þá umfram það sem gerist meðal kvenna.

Ólöf Júlíusdóttir

Lykilorð: ástarkraftur, jafnrétti, vinnumarkaður

Tengsl milli menntunar og tekna maka og starfsferilsþróunar doktorsmenntaðra á Íslandi

Rannsóknir á starfsferilsþróun fólks í stjórnunarstöðum og akademíu hafa, á undanförnum áratugum, aukist töluvert. Hluti af þeim rannsóknum hafa sérstaklega beint sjónum sínum að starfsferilsþróun fólks með tilliti til fjölskyldugerðar. Jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu í þessu samhengi er einkum áhugavert að skoða í ljósi þess að hugmyndir um möguleikann á að öðlast starfsframa á þessum sviðum var upphaflega byggður á fyrir­vinnu-módelinu. Þrátt fyrir að fyrirvinnu-módelið teljist í dag frekar til undantekningar í hinum vestræna heimi benda rann­sóknir þó til þess að hugmyndir um hinn „framúrskarandi rannsakanda“ eða hinn „farsæla stjórnanda“ sem krefjast þess að vinnan fái óskipta athygli og að maki sjái að mestu um allt sem við kemur heimilinu, lifi enn góðu lífi. Í ljósi framsækni Íslands hvað varðar atvinnuþátttöku kvenna, er áhugavert að skoða hlutverk maka í starfsferilsþróun doktors­menntaðra á Íslandi. Til greiningar verða nýtt lang­tímagögn Hagstofu Íslands frá árunum á milli 1997 og 2017 og er þýðisramminn einstaklingar með 5 – 20 ára gamalt doktors­próf. Við munum beita dreifnigreiningu (ANOVA) og þannig skoða hvort hjúskaparstaða, menntun og tekjur maka hafi áhrif á tekjuþróun hinna doktorsmenntuðu. Rannsóknin er enn á frumstigi en við munum birta fyrstu niðurstöður á ráðstefnunni.

Maya Staub og Thamar Melanie Heijstra

Lykilorð: starfsferilþróun doktorsmenntaðra, makar, dreifnigreining (ANOVA)

Kynbundinn munur á afleiðingum og viðbrögðum við kynferðislegri áreitni á íslenskum vinnustöðum

Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum er algengt vandamál og sýna rannsóknir að konur eru oftar þolendur en karlar sem rakið er til kynbundinna viðhorfa og ójafnrar stöðu kynjanna á vinnu­markaði. Afleiðingar geta þó verið alvarlegar fyrir bæði kyn og komið niður á vinnu og einkalífi. Í þessari rannsókn var kannað hvort munur var á viðbrögðum kvenna og karla sem urðu fyrir kynferðislegri áreitni og hvort greina megi mismunandi afleið­ingar á störf þolenda eftir kyni. Gögnum var safnað með til­viljunar­úrtaki úr netpanel Félagsvísindastofnunar (n=2387, svarhlutfall 45%) og að auki var tekið tilviljunarúrtak úr þýði inn­flytjenda úr Þjóðskrá (n=831, svarhlutfall 32%). Niðurstöður sýndu að 25% kvenna og 7% karla höfðu orðið fyrir kyn­ferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tímann á starfs­ferlinum. Algengara var að karlar töldu áreitnina ekki hafa haft nein áhrif á starf sitt eða 79% þeirra á móti 53% kvenna. Álíka hátt hlutfall kvenna (19%) og karla (17%) lagði fram kvörtun á vinnu­staðnum. Konur (66%) voru líklegri en karlar (55%) til að ræða við vin, samstarfsfélaga eða fjölskyldumeðlim um áreitnina. Kynferðisleg áreitni hefur afleiðingar fyrir bæði konur og karla, en þó hallar frekar á konur. Mikilvægt er að allar stefnur og aðgerðir innan vinnustaða taki mið af jafnrétti kynjanna.

Ásta Snorradóttir og Ólöf Júlíusdóttir

Lykilorð: kynferðisleg áreitni, valdbeiting í vinnu, jafnrétti á vinnustöðum

Valdaójafnvægi og kynferðisleg áreitni: Reynsla íslenskra íþróttakvenna

Íþróttakonur gáfu út #metoo reynslusögur þann 11. janúar 2018 og síðan þá hafa fleiri stigið fram. Reynsla þeirra lýsir ójafnrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem virðist viðgangast í íþróttaumhverfinu á Íslandi. Erlendar rannsóknir benda til þess að kynferðisleg áreitni og ofbeldi sé viðvarandi vandamál innan íþrótta og að menningin innan þeirra ýti jafnvel undir og samþykki slíka hegðun. Rannsóknir benda jafnframt til þess að í íþróttum eigi sér stað normalísering og umburðarlyndi gagnvart kynferðislegri áreitni sem birtist meðal annars í því að litið er fram hjá skaðsemi hennar auk þess sem kynferðisleg sambönd milli ungra iðkenda og þjálfara eru álitin meinlaus og jafnvel viðtekið norm. Í þessu samhengi hefur þó verið sýnt fram á að sterk tengsl séu milli valdaójafnvægis og aukinnar hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni í íþróttum. Tengslaofbeldi (e. relational violence) getur því átt sér stað, bæði milli þjálfara og nemenda og eins milli iðkenda í þeim tilfellum þar sem valdaójafnvægi er til staðar (t.d. með tilliti til aldurs og aðstæðna). Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á stöðuna á Íslandi með hliðsjón af erlendum rannsóknum en hún byggir á viðtölum sem tekin voru við fyrrverandi og núverandi íþróttakonur um reynslu þeirra af íþróttaumhverfinu. Rannsóknin er enn á frumstigi og öflun gagna er í ferli. Hér verður fjallað um frumniðurstöður úr fyrstu viðtölunum.

Anna Soffía Víkingsdóttir

Lykilorð: íþróttir, kynferðisleg áreitni, valdaójafnvægi

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 12:45
 • Zoom meeting id: 666 2908 1652
Höfundar erinda
Aðjúnkt
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Ph.D. / Phd
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 12:45
 • Zoom meeting id: 666 2908 1652