Ráðstefnur
fyrri ára
Málstofur 2019-2022
Smelltu á málstofu til að lesa ágrip erinda. (Ágripabækur ráðstefnunnar 2012 – 2022 – PDF, eru aðgengilegar hér fyrir neðan).
Ágripabækur
Lestu ágrip frá fyrri árum (PDF)
Ávörp sviðsforseta félagsvísindasviðs
Stefán Hrafn Jónsson
2022
Það er ánægjulegt að geta loksins haldið Þjóðarspegilinn á ný í salarkynnum Háskóla Íslands eftir að hafa haldið tvær ráðstefnur nær alfarið rafrænt vegna heimsfaraldurs. Í ár hefjum við ráðstefnuna á fimmtudegi með tveimur inngangsfyrirlestrum um félagslega nýsköpun, pallborðsumræðum og þiggjum léttar veitingar að því loknu.
Með vali á opnunarfyrirlestrum í ár vörpum við kastljósinu á félagslega nýsköpun sem svo margt félagsvísindafólk fæst við í dag þó fáir noti það hugtak yfir rannsóknir sínar og samvinnu við samfélagið.
Nokkrar skilgreiningar eru notaðar yfir hugtakið félagsleg nýsköpun. Ef við leggjum út frá skilgreiningu Sarah A. Soule, Neil Malhotra og Bernadette Clavier er ljóst að félagsleg nýsköpun nær til mikið af því ágæta rannsóknarstarfi sem íslenskt félagsvísindafólk stundar með af mikilli prýði. Samkvæmt Soule og félögum þá er samfélagsleg nýsköpun ekki einkamál eða forréttindi tiltekinna skipulagsheilda eða geira samfélagsins heldur er samfélagsleg nýsköpun hver þau ferli sem fela í sér að þróa og miðla lausnum á oft kerfislægum áskorunum samfélags og umhverfis og stuðla þannig að félagslegum framförum.
Þjóðarspegillinn er nú haldinn í tuttugasta og þriðja sinn. Árið 1994 stóðu félagsvísindadeild og viðskipta – og hagfræðideild Háskóla Íslands að fyrstu ráðstefnu Þjóðarspegilsins. Síðar bættist lagadeild við. Allar deildir Félagsvísindasviðs hafa staðið að ráðstefnunni frá árinu 2008. Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ingjaldur Hannibalsson prófessor í viðskiptafræði og fyrrum deildarforseti Viðskiptafræðideildar voru helstu hvatamenn fyrstu ráðstefnu Þjóðarspegilsins. Ráðstefnan hefur borið nafnið Þjóðarspegillinn frá árinu 2006 og er orðin veigamikill vettvangur fyrir kynningar á íslenskum rannsóknum í félagsvísindum. Frá því að ráðstefna Þjóðarspegilsins var haldin fyrst, hefur verið lögð mikil áhersla á að hún væri ekki aðeins vettvangur fyrir fræðafólk að ræða hvert við annað heldur einnig vettvangur fyrir virkt samtal félagsvísindanna við samfélagið utan veggja háskólanna. Þetta hefur tekist vel því sérfræðingar í félagsvísindum hafa nú í nokkra áratugi verið í mjög góðu og virku samtali við hagsmunaaðila í samfélaginu. Eins og dagskrá ráðstefnunnar í ár ber glöggt vitni er mikil gróska í rannsóknum í félagsvísindum. Flestar eiga þessar rannsóknir beint og ekki síður brýnt erindi við íslenskt samfélag. Í samræmi við stefnu HÍ um aukinn sýnileika og virkara samtal fræðanna við samfélagið var ákveðið að ráðast í það verkefni að vinna markvisst að því að auka sýnileika rannsókna í félagsvísindum og stuðla að virkari samvinnu við samfélagið. Þetta verður gert með því að víkka út hlutverk Þjóðarspegilsins þannig að hugtakið vísi ekki einvörðungu til ráðstefnu sem haldin er einu sinni á ári heldur til vettvangs samtals félagsvísinda við samfélagið allt árið um kring. Ráðstefnan verður þá hluti af Þjóðarspeglinum, sem í heild nær yfir umfangsmeiri miðlun og kynningu á rannsóknum félagsvísinda. Vefsíða Þjóðarspegilsins mun breytast í nóvember í samræmi við þessa breyttu áherslu.
Félagsvísindastofnun hefur frá upphafi haft umsjón og skipulagt ráðstefnu Þjóðarspegilsins í samvinnu við annað gott starfsfólk sviðsins. En ráðstefnan verður ekki að veruleika ef ekki væri fyrir þátttöku fyrirlesara, málstofustjóra og annarra góðra gesta. Ég vil þakka öllum sem koma að ráðstefnunni fyrir þeirra góðu vinnu.
Þegar ég lít yfir dagskrána framundan og öll þau áhugaverðu erindi sem eru í boði þá fyllist ég bjartsýni og veit að framtíð félagsvísinda á Íslandi mun halda áfram að þróast og dafna sem aldrei fyrr.
Eigið góðar stundir.
Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs
2021
Þjóðarspegillinn – Ráðstefna í félagsvísindum er nú haldinn í tuttugasta og annað sinn. Árið 1994 stóðu félagsvísindadeild og viðskipta – og hagfræðideild Háskóla Íslands að fyrsta Þjóðarspeglinum, síðar bættist lagadeild við. Allar deildir Félagsvísindasviðs hafa staðið að ráðstefnunni frá árinu 2008.
Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ingjaldur Hannibalsson prófessor í viðskiptafræði og fyrrum deildarforseti Viðskiptafræðideildar voru helstu hvatamenn fyrsta Þjóðarspegilsins.
Ráðstefnan hefur borið nafnið Þjóðarspegill frá árinu 2006 og hefur orðið veigamikill vettvangur fyrir kynningar á íslenskum rannsóknum í félagsvísindum. Frá fyrstu ráðstefnunni var lögð mikil áhersla á að á ráðstefnunni væri ekki aðeins fræðafólk að ræða hvert við annað heldur hefur ráðstefnan verið vettvangur fyrir virkt samtal við samfélagið utan veggja háskólanna. Kynningar fræðimanna hafa gjarnan verið settar fram þannig að þær veki áhuga nemenda, fagfólks utan háskólanna, fjölmiðla og almennings.
Félagsvísindastofnun hefur frá upphafi haft umsjón og skipulagt þjóðarspegilinn í samvinnu við annað starfsfólk Félagsvísindasviðs. En ráðstefnan hefði samt aldrei orðið ef ekki væri fyrir þátttöku fyrirlesara, málstofustjóra, og góðra gesta. Ég færi ykkur öllum kærar þakkir fyrir framlagið. Sérstaklega vil ég þakka Ólöfu Júlíusdóttur, Árna Braga Hjaltasyni, Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, Huldu Proppé, Ara Klæng Jónssyni, Guðnýju Gústafsdóttur, Ásdísi Arnalds, Hrafnhildi Snæfríðar – Gunnarsdóttur, Vilhelmínu Jónsdóttur, Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, Guðlaugu Júlíu Sturludóttur, og Þórarni Hjálmarssyni fyrir undirbúning ráðstefnunnar. Heimsfaraldur og óvissa um stöðu sóttvarnaraðgerða, og skortur á kennslustofum vegna vatnstjóns í janúar á þessu ári, hafði mikil áhrif á skipulag og fyrirkomulag Þjóðarspegilsins þetta árið.
Breytt umgjörð dregur ekki úr mikilvægi Þjóðarspegilsins. Heimsfaraldur hefur sýnt enn betur fram á mikilvægi rannsókna á samfélaginu og miðlun þekkingar í glímunni við áskoranir samtímans og framtíðarinnar. Þess vegna var ákveðið að halda ráðstefnuna en fresta henni ekki.
Á sama tíma og margir sem taka þátt í Þjóðarspeglinum vilja hittast í húsnæði Háskóla Íslands, þá felst tækifæri í rafrænni ráðstefnu. Tækifæri til að efla samtal við samfélagið. Þess vegna hvet ég alla til að bjóða fólki utan háskólasamfélagsins til að taka þátt í Þjóðarspeglinum í ár. Rafræn ráðstefna eykur einnig möguleika fólks að taka þátt ráðstefnunni sem annars hefði ekki haft kost á því m.a. vegna búsetu, heimilisaðstæðna, hreyfanleika, vinnu og fleira.
Þegar ég lít yfir dagskrána framundan og öll þau áhugaverðu erindi sem eru í boði þá fyllist ég bjartsýni yfir framtíð félagsvísinda á Íslandi.
Eigið góðar stundir.
Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs
2020
Daði Már Kristófersson
2019
Aðalhvatamenn ráðstefnunnar voru þeir Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ingjaldur Hannibalsson prófessor í viðskiptafræði og fyrrum deildarforseti viðskiptafræðideildar.
Frá skipulagsbreytingum Háskóla Íslands árið 2008 hafa allar deildir Félagsvísindasviðs staðið að ráðstefnunni. Nafn ráðstefnunnar, Þjóðarspegill, hefur verið notað í rúman áratug. Þjóðarspegillinn hefur orðið meginvettvangur kynningar á rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi. Frá upphafi var því lögð áhersla á að ráðstefnan væri vettvangur þar sem fræðafólk gæti kynnt rannsóknir og efnt til samræðna við almenning. Þannig hafa fyrirlesarar í gegnum tíðina verið hvattir til að haga erindum sínum og efni þannig að nemendur og almenningur geti haft gagn og gaman af.
Umsjón og skipulagning ráðstefnunnar hefur frá upphafi verið í höndum starfsfólks Félagsvísindastofnunnar en margir aðilar innan félagsvísindasviðs hafa í gegnum tíðina lagt hönd á plóg og komið að undirbúningi ráðstefnunnar. Á síðastliðnum tuttugu árum hefur ráðstefnan vaxið mikið að umfangi. Þjóðarspegillinn er nú þverfræðileg ráðstefna á sviði félagsvísinda þar sem taka þátt sérfræðingar og fræðafólk af ýmsum fræðasviðum svo sem lögfræði, félagsfræði, bókasafns- og upplýsingafræði, aðferðafræði, afbrotafræði, fötlunarfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, mannfræði, sálfræði, námsráðgjöf, kynjafræði, viðskiptafræði, uppeldis- og menntunarfræði, stjórnmálafræði, safnafræði og þjóðfræði. Árlega tekur jafnframt þátt erlent fræðafólk, sérfræðingar hinna ýmsu stofnana, sjálfstæðir rannsakendur og fræðafólk frá öllum háskólum landsins. Það er von mín Þjóðarspegillinn haldi áfram að þróast, vaxa og dafna um ókomna framtíð.
Aðalfyrirlesarar undanfarinna ára
Hein de Haas
Aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins 2019 var Hein de Haas.
Hein de Haas, leiðandi fræðimaður á sviði fólksflutninga, mun setja erlent starfsfólk á Íslandi í alþjóðlegt samhengi.
De Haas er prófessor í félagsfræði við háskólann í Amsterdam. Hann er einn af stofnendum og fyrrum formaður International Migration Institute við Oxford University. Rannsóknir de Haas snúa að tengslum milli fólksflutninga og víðari félagslegra breytinga. Hann hefur skrifað fjölmargar kenningarlegar og empirískar greinar og bækur um orsakir fólksflutninga og áhrif stefnumótunar á lífsskilyrði innflytjenda, og fært rök fyrir því að helsti drifkraftur fólksflutninga til Evrópu sé þörf evrópska hagkerfisins fyrir ódýrt vinnuafl.
De Haas er höfundur (ásamt Stephen Castles og Mark Miller) bókarinnar The Age of Migration: International Population Movements in the Modern World.
Freyja Haraldsdóttir
Aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins 2020: Freyja Haraldsóttir
Freyja Haraldsdóttir er doktorsnemi í menntunarfræði við Háskóla Íslands og með nám í kynjafræði og þroskaþjálfafræði að baki. Hún starfar jafnframt sem réttindagæslumaður fatlaðs fólks og er talskona Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar. Freyja hefur starfað við rannsóknir síðustu árin en meistararannsókn hennar beindist að því að skoða sálrænar afleiðingar af misrétti fyrir fatlaðar konur og doktorsrannsókn hennar snýr að reynslu fatlaðra kvenna af móðurhlutverkinu á tímum nýfrjálshyggju með áherslu á samtvinnun fötlunar, kyngervis og stéttar.
Freyja Haraldsdóttir var með erindi í málstofunni Lífsgæði og þátttaka fatlaðra barna. Þar fjallaði hún um rannsóknina sem hún hefur tekið þátt í vinnu við síðustu árin,en það er umbótarannsóknin Lífsgæði og þátttaka fatlaðra barna og ungmenna (LIFE-DCY).
Í rannsókninni hefur Freyja beint sjónum sínum að reynslu og upplifun ungmenna í gegnum rýnihópaviðtöl og mun hún í fyrirlestri sínum varpa ljósi á hvernig fötluð ungmenni skilgreindu og upplifðu lífsgæði og hvernig þau töldu að best sé að tryggja fötluðum börnum og ungmennum möguleika til fullrar þátttöku í samfélaginu.
„Það hefur verið dýrmætt og mikilvægt ræða um hugtökin lífsgæði og þátttöku við ungt fatlað fólk í gegnum LIFE-DCY rannsóknina. Það er athyglisvert að sjá að á meðan ungt fatlað fólk skilgreinir hefðbundna þætti sem við teljum flest til lífsgæða mikilvæg, eins og húsnæði, fæði, klæði og góða heilsu, að þá eru þau mun uppteknari af lífsgæðum sem snúa að frelsi frá ofbeldi og fordómum, jöfnum tækifærum í samfélaginu, aðgengi í sínu víðtækustu mynd og djúpstæðum og sterkum tengslum við fólk.
Í þeirra augum eru slík lífsgæði oft forsenda fyrir þátttöku í samfélaginu, þeirri tilfinningu að þau tilheyri og að þau séu mikils metin. Það sem kemur einnig sterkt fram er að þau eru mjög þreytt á því að fólk áætli að líf þeirra sé verra en ófatlaðs fólks og að framtíðarsýn þeirra geti ekki verið björt. Ungt fatlað fólk er vissulega fjölbreyttur hópur og litast lífsreynsla þeirra af fleiri þáttum en fötlun, s.s. kyni, kynhneigð, kynþætti og fjölskyldubaklandi. Það er þó sameiginleg sýn þeirra að tækifærin felast fyrst og fremst í því að uppræta fötlunarfordóma og tryggja þeim sjálfstæði og frelsi svo þau geti notið lífsgæða sinna til fulls og tekið þátt í samfélaginu á öllum sviðum. Þekking þeirra og lífsreynsla er afar verðmæt og algjört lykilatriði að raddir þeirra séu leiðandi í því að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi og hrista upp í ófötluðum heimi.“
Steinunn Hrafnsdóttir
Opnunarerindi ráðstefnunnar 2022: Steinunn Hrafnsdóttir
Að gera heiminn betri? Samfélagsleg nýsköpun og félagsvísindi
Steinunn Hrafnsdóttir Prófessor og forsvarskona Vaxandi miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun.
Í erindinu vear fjallað um samfélagslega nýsköpun út frá fræðilegu sjónarhorni. Þeirri spurningu var velt upp hvert framlag og hlutverk félagsvísinda eigi að vera til slíkrar nýsköpunar. Efnið var tengt fjórþáttalíkani nýsköpunar (Quadruple Helix Model) og samfélagslegu gildi háskóla. Einnig var hugað að þeim þáttum sem verða að vera fyrir hendi til að slík samfélagsleg nýsköpun verði eðlilegur þáttur í starfi Háskóla. Nefndar voru ólíkar leiðir sem félagsvísindin geta farið í átt að þessu markmiði og hvert hlutverk fræðafólks er í þessum efnum.
Stefan Celine Hardonk
Opnunarerindi ráðstefnunnar 2022: Stefan Celine Hardonk
Samstarfsverkefni um nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks: hugleiðingar um samfélagslega nýsköpun
Stefan Celine Hardonk Dósent í fötlunarfræði og formaður Félags um nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks.
Árið 2020 hófst rannsóknarverkefni sem hafði það að markmiði að kanna möguleika fyrir fatlað fólk til þátttöku í nýsköpun. Annað hvort með því að fatlað fólk þróaði sínar eigin hugmyndir eða með því að það tæki þátt í verkefnum annarra frumkvöðla. Í kjölfarið var unnið með hagsmunaaðilum að mótun tillagna að samstarfsverkefni sem styður við þátttöku fatlaðs fólks í nýsköpun. Það var gert með því að tengja saman fatlað fólk, frumkvöðla, stuðningsúrræði á vinnumarkaði og hagsmunasamtök á sviði fötlunar og nýsköpunar. Í fyrirlestrinum fjallar Stefan um reynslu sína af verkefninu og ræðir meðal annars þau tækifæri sem rannsakendur í félagsvísindum hafa á sviði samfélagslegrar nýsköpunar, mótun samstarfs við samfélagsaðila ásamt því að fjalla um áskoranir í nýsköpunarferlinu. Lærdómur af framkvæmd verkefnisins er hugsaður sem innlegg inn í umræðu fræðafólks og samfélagsaðila um félagslega nýsköpun og hlutverk háskólans í þeirri nýsköpun.